Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum, skynsemin ráði

Greining Arion banka spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í þessum mánuði og með þeirri ákvörðun verði skynsemin látin ráða.

Í Markaðspunktum greiningarinnar segir að flest hafi þróast með þeim hætti að Seðlabankinn veit væntanlega vart í hvorn fótinn hann á að stíga við næstu vaxtaákvörðun. Þrátt fyrir að afar veikur og brothættur efnahagsbati sé hafinn hefur gengi krónunnar lækkað sleitulaust síðastliðna sex mánuði og verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið á uppleið.

Þyngst vega þó hinar óhóflegu og innistæðulausu launahækkanir sem hafa litið dagsins ljós og hljóta að hafa komið sem köld vatnsgusa framan í andlit peningastefnunefndar ofan á þann verðbólguþrýsting sem virðist vera í pípunum vegna hrávöruverðshækkana út í heimi.

Því virðist ýmislegt benda til þess að Seðlabankinn vilji hreinlega spyrna við fótum og hækka vexti. Hinsvegar tekur greiningin að hinn brothætti efnahagsbati verði látin njóta vafans og að vextirnir verði því óbreyttir.

„Þó ýmis rök hnigi bæði með og á móti stýrivaxtahækkun þá teljum við að skynsemissjónarmiðið muni vega þyngra, þ.e. að hinn brothætti efnahagsbati sem er í augsýn, njóti vafans. Bollaleggingar um að sýna mátt sinn og megin verða því látnar sjatna tímabundið í það minnsta, þar til áhrif kjarasamninganna og næstu skref í afnámi gjaldeyrishafta liggja betur fyrir. Við spáum því óbreyttum stýrivöxtum 15. júní,“ segir í Markaðspunktunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×