Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands rauk upp eftir útboðið

Athyglisvert er að í kjölfar tilkynningarinnar um velheppnað skuldabréfaútboð íslenska ríkisins upp á milljarð dollara rauk skuldatryggingaálag Íslands upp að nýju.

Áður en tilkynningin barst um að ríkissjóði hefði tekist að selja ríkisskuldabréf í dollurum á vöxtum sem eru rétt innan við 5% stóð skuldatryggingaálag Íslands í sléttum 200 punktum og hafði ekki verið lægra síðan nokkru fyrir hrunið haustið 2008.

Vaxtakjörin þykja og mjög ásættanleg og betri en Ungverjalandi bauðst nýlega í samskonar útboði.

Eftir tilkynninguna um skuldabréfaútboðið, þar sem þess var getið að eftirspurnin hefði numið um tveimur milljörðum dollara rauk skuldatryggingaálag Íslands upp í 265 punkta samkvæmt mælingunni á vefsíðunni keldan.is. Sú vefsíða fær síðan sínar upplýsingar frá Bloomberg og CMA gagnaveitunni.

Þessi mikla hækkun á skuldatryggingaálaginu þýðir væntanlega að mikil eftirspurn hafi skapast eftir því að tryggja þau skuldabréf sem keypt voru gegn greiðslufalli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×