Viðskipti innlent

Landsbankinn spáir óbreyttum stýrivöxtum

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum en næsti vaxtaákvörðunardagur er á miðvikudaginn kemur.

„Í ljósi yfirlýsingar Peningastefnunefndar Seðlabankans hinn 30. mars er líklegt að hugleiðingar nefndarinnar að þessu sinni snúist um það hvort halda skuli stýrivöxtum óbreyttum eða hækka þá. Meirihluti nefndarmanna virðist sannfærður um að virkt samband sé á milli stýrivaxta og gengis krónunnar, þrátt fyrir gjaldeyrishöft,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Bankinn bendir á að gengi krónunnar hafi veikst nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun og verðbólga hafi hækkað. „Eftirspurn eftir lánsfé er hinsvegar í lágmarki, atvinnuleysi er mikið og lítill þróttur er í efnahagslífinu um þessar mundir. Að mati Hagfræðideildar Landsbankans myndi vaxtahækkun við núverandi aðstæður hvorki hafa áhrif á þróun gengisins til skamms tíma né slá á hækkun verðbólguvæntinga síðustu mánuði.“

„Áhrifaríkustu verkfæri Seðlabankans til að halda verðbólgunni í skefjum snúa beint að gengi krónunnar og aukinni virkni fjármálamarkaða,“ segir ennfremur. „Þar leikur áætlunin um afnám gjaldeyrishafta lykilhlutverk og brýnt er að þau skref sem snúa að fjárfestingu aflandskróna í atvinnulífinu verði stigin sem fyrst.“

Að lokum segir að Seðlabankar Evrusvæðisins, Bandaríkjanna og Bretlands hafi nýverið ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir mun skjótari efnahagsbata á þessum svæðum en svipaða verðbólguþróun og hér á landi. „Miðað við mikinn slaka í íslensku hagkerfi og veikburða efnahagsbata er fátt sem mælir með hækkun stýrivaxta. Í ljósi þessa gerir Hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir því að meirihluti Peningastefnunefndarinnar ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×