Viðskipti innlent

Góðar vísbendingar um tiltrú fjárfesta á hagkerfið

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru sammála um að gjaldeyrisútboð Seðlabankans og skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs hjálpi til við afnám gjaldeyrishafta. Góðar vísbendingar séu um tiltrú fjárfesta á íslenska hagkerfið.

Í vikunni stigu stjórnvöld tvö skref sem eiga það sameiginlegt að vera lykilþættir í nýjustu áætluninni um afnám gjaldeyrishafta. Annars vegar er um að ræða útboð Seðlabankans á gjaldeyri til eigenda aflandskróna, og hins vegar um fyrstu skuldabréfaútgáfu ríkisins í erlendum gjalmdiðli frá hruni.

Gjaldeyrisútboðið benti ekki til að verulegur útstreymisþrýstingur væri á íslensku krónuna, en meirihluti fjárfesta var ekki reiðubúinn að yfirgefa landið á fjórðungi lægra gengi en nú er skráð á krónunni. Mikla eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum má svo túlka á þann veg að ríkið njóti trausts lánveitenda, sem er forsenda þess að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin.

Fjármála- og viðskiptaráðherra eru sammála um að atburðir vikunnar sendi jákvæð skilaboð um trúnna á íslenskt efnahagslíf. En benda þeir til þess að trúin á krónuna sé slík að hægt sé að hraða afnámi gjaldeyrishaftanna verulega? „Jú, það er þess vegna sem aðferðafræðin um afnám gjaldeyrishafta er eins og hún er," segir Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra. „Ef það er mikil tiltrú, þá er hægt að gera þetta hratt." Fyrir lok árs? „Það fer eftir aðstæðum á markaði. Aðferðafræðin gerir ráð fyrir því að þetta geti gerst hratt ef aðstæður leyfa, en við höfum svigrúm til að taka lengri tíma ef aðstæður eru erfiðar," bætir Árni Páll við.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tekur undir að atburðir vikunnar hjálpi verulega til við afnám gjaldeyrishaftanna. Það gjörbreyti stöðu landsins að hafa sýnt fram á getuna til að fjármagna hið opinbera í gegnum alþjóðlega skuldabréfaútgáfu, og því sé landið ekki háð umsömdum lánum.

En í ljósi þessa árangurs í vikunni, er þá ekki fásinna að ætla að lögfesta gjaldeyrishöftin til 2015? „Nei, við þurfum auðvitað að hafa lagaramma um afnám haftanna," segir Steingrímur. „Aðgerðin verður að vera trúverðug og traustvekjandi. Það er engin mótsögn í því að vilja gjarnan hraða afnámi haftanna, en hafa til öryggis möguleikann á því að gera það í áföngum þannig að hægt sé að forðast kollsteypur eða röskun á jafnvægi. Þetta sýnir að áætlunin er mjög vel útfærð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×