Viðskipti innlent

Enn berjast athafnamenn: Wessman hafði betur í Hæstarétti

Valur Grettisson skrifar
Róbert og Björgólfur berjast.
Róbert og Björgólfur berjast. Myndin er samsett.
Hæstiréttur Íslands snéri í dag frávísunarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur,sem féllst á frávísunarkröfu Novator í maí síðastliðnum í skuldamáli sem athafnamaðurinn Róbert Wessman höfðaði gegn fyrirtækinu, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Róbert krefst vangreiddrar árangurstengdrar þóknunar upp á um 30 milljónir evra, sem gera 4,6 milljarðar króna, af félögunum Novator Pharma Holding og Novator Pharma.

Róbert var forstjóri Actavis til ársins 2008. Athafnamennirnir tveir, Björgólfur og Róbert, deildu um það hvernig starfslokum Róberts hefði borið að. Þannig vildi Björgólfur meina að Róberti hefði verið sagt upp, því neitaði hinsvegar Róbert sem krafðist í kjölfarið árangurstengdrar þóknunar.

„Þetta er náttúrulega engin efnisdómur um kröfuna og verður úrskurðinum áfrýjað til Hæstaréttar," sagði lögmaður Róberts Wessman, Árni Harðarson, þegar leitað var viðbragða hjá honum um málið í maí.

Deilan snérist um kröfugerð í málinu, sem byggði að hluta til á fjárhagskennitölum (EV/EBITDA gildum) Actavis. Héraðsdómur taldi að hún þyrfti að vera skýrari, en hún byggði að hluta til á áætlunum Róberts.

Ástæðan fyrir áætluninni var sú að Róbert hafði á þeim tíma, sem var stefnt, ekki aðgang að nýjasta ársreikningi Actavis. Hann var síðar lagður fram í málinu.

Hæstiréttur hefur fallist á að rök Róberts. Málið heldur því áfram fyrir héraði.

Mikil átök eru á milli Björgólfs og Róberts og er þeim hvergi lokið. Þannig hefur Actavis Group stefnt Róberti til greiðslu skuldar upp á 300 milljónir króna vegna kúluláns sem Róbert fékk hjá félaginu til að kaupa hlutabréf í því.

Þá hefur BeeTeeBee Ltd., sem er í eigu Björgólfs Thors, einnig stefnt Róberti og Burlington Worldwide Limited til greiðslu 1,2 milljarða skuldar vegna annars láns.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×