Viðskipti innlent

Eignir Skúla, Hreiðars og Magnúsar kyrrsettar

Hreiðar Már Sigurðsson er meðal þeirra sem eignir hafa verið kyrrsettar hjá. Saksóknari virðist hinsvegar vera á höttunum á eftir Skúla Þorvaldssyni.
Hreiðar Már Sigurðsson er meðal þeirra sem eignir hafa verið kyrrsettar hjá. Saksóknari virðist hinsvegar vera á höttunum á eftir Skúla Þorvaldssyni. Mynd / Visir.is
Búið er að kyrrsetja eignir Skúla Þorvaldssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar. Meðal eigna sem hafa verið kyrrsettar eru í Lúxemborg. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Áður hafði Morgunblaðið greint frá kyrrsetningunum en mennirnir voru þá ekki nafngreindir.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru eignir fleiri en þeirra þriggja kyrrsettar. Ekki hefur fengist staðfest um hverja til viðbótar er að ræða.

Kyrrsetningarnar tengjast allar rannsókn embættis sérstaks saksóknara á meintum brotum sem áttu sér stað innan Kaupþings fyrir og eftir bankahrun. Auk þess er hluti kyrrsetninganna bráðabirgðaaðgerðir sem gripið var til að beiðni yfirvalda í Lúxemborg.

Viðskiptablaðið hefur eftir heimildum að réttarbeiðni sérstaks saksóknara hafi aðallega snúist um að fá eignir Skúla Þorvaldssonar og félaga, sem hann er skráður eigandi að kyrrsettar. Embættið telur að í félögunum sé að finna ágóða af gerningum sem mögulega varða við lög.

Skúli var stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×