Viðskipti innlent

Styðja Háskólann í Reykjavík um 200 milljónir

470 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík í dag, en útskriftarathöfnin fór fram í Hörpu.
470 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík í dag, en útskriftarathöfnin fór fram í Hörpu. Mynd/Bjarni
Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins og Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun hafa ákveðið styðja við og efla háskólastarf á Íslandi með 200 milljón króna framlagi til Háskólans í Reykjavík. Þetta kom fram í ávarpi Ara Kristins Jónssonar, rektors skólans, við útskriftarathöfn HR sem haldin var í Hörpu í dag.

„Þetta framlag er mikilvæg lyftistöng fyrir Háskólann í Reykjavík en um leið markar það fyrsta skrefið í þá átt að halda áfram öflugri upbbygingu skólans. Með þessu framlagi er atvinnulíf landsins að sýna í verki að  fjárfesting í háskólamenntun er fjárfesting í framtíð atvinnulífs og samfélags,“ sagði Ari Kristinn.

Ekki vel menntuð þjóð

Hann undirstrikaði mikilvægi öflugs háskólastarf fyrir íslenskt samfélag og sagði það spila lykilhlutverk í samkeppnishæfni atvinnulífs. Það ætti bæði við um menntun starfsfólks sem og rannsóknir til nýsköpunar.

„Staðreyndin er því miður sú að þó miklar framfarir hafi orðið á undanförnum árum, þá teljumst við enn ekki vel menntuð þjóð, því hlutfall háskólamenntaðra er lægra hér en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.“

Fjárfesting í háskólamenntun

Ari Kristinn sagði brýnt að Íslendingar fjárfesti í framtíðinni með fjárfestingu í háskólamenntun. „Það sem til þessa hefur verið lagt í háskóla landsins hefur skilað sér með eindæmum vel því mjög gott starf er unnið þrátt fyrir að framlög hins opinbera á hvern nemanda séu aðeins helmingur þess sem gerist í nágrannalöndunum.“

Í ræðu Ara Kristins kom ennfremur fram að Háskólinn í Reykjavík væri, þrátt fyrir ungan aldur, nú þegar orðinn stærsti tækni- og viðskiptaháskóli Íslands, en HR útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tæknimenntun á háskólastigi og um helming þeirra sem lýkur viðskiptamenntun.

470 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík í dag. 180 voru útskrifaðir frá tækni- og verkfræðideild skólans, 100 frá viðskiptadeild, 74 úr lagadeild, 68 úr tölvunarfræðideild og 48 frá kennslufræði- og lýðheilsudeild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×