Viðskipti innlent

Dýrt að verjast árásum tölvuþrjóta

Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.
Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP. Mynd/GVA
Árásir skemmdarvarga í tölvuheimum hleypa upp kostnaði við rekstur þeirra, segir Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, hann segir vel hægt að verjast slíkum árásum en það sé dýrt. Tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi japanska fyrirtækisins Sega um helgina.

Þrjótarnir stálu persónuupplýsingum um eina komma þrjár milljónir viðskiptavina japanska tölvuleikjaframleiðandans. Upplýsingum um nöfn, fæðingardaga, netföng og lykilorð.

Fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum að undanförnu, ráðist hefur verið á tölvukerfi Sony, Nintendo, bandaríska þingsins, leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA, FOX fréttastofunnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og spænska ríkislögreglustjórans - auk íslenska fyrirtækisins CCP sem á og rekur tölvuleikinn EVE Online. Tölvukerfi CCP lá niðri í sex klukkustundir vegna þessa í vikunni.

Samkvæmt fregnum erlendra miðla eru það einkum tveir hópar skemmdarvarga í netheimum sem bera ábyrgð á árásunum, Anonymous og Lulz Security, eins og þeir kalla sig.

Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, telur tölvuþrjóta vera að sækja í sig veðrið en árásir hafa magnast umtalsvert síðustu mánuði. „Þetta er framkallað með svokölluðum dotnetum þar sem fólk er búið að komast yfir sýktar tölvur notenda sem það síðan beitir til að framkalla svona árásir."

Spurður hvort tölvuþrjótarnir vinni samkvæmt hugmyndafræði eða um hvort skemmdarvarga sé að ræða svarar Hilmar: „Ég get ekki séð það. Mér sýnist þetta var skemmdarfíkn og skæruliðastarfsemi."

Eitthvað hefur gengið að hafa uppi á skemmdarvörgum. 32 einstaklingar voru handteknir í Tyrklandi í vikunni, samkvæmt BBC, en þeir eru taldir meðlimir í Anonymous. Fyrir níu dögum handtók spænska lögreglan þrjá einstaklinga sem taldir eru í sama hópi tölvuþrjóta. Handtakanna var hefnt með árásum á opinberar vefsíður í Tyrklandi og á Spáni.

Fyrirtæki reyna að verjast árásum sem þessum. Hilmar segir slíkt kosta sitt. „Það er í sjálfu sér ekki flókið en það er kostnaðarsamt."


Tengdar fréttir

Brotist inn í tölvukerfi söluaðila bandaríska hersins

Lockheed Martin, sem selur bandaríska hernum vopn og flugvélar og er umsýslu- og þjónustuaðili upplýsingakerfa bandaríska ríkisins, varð fyrir alvarlegri tölvuárás hinn 21. maí síðastliðinn. Fyrirtækið, sem framleiðir meðal annars F16 orrustuþotur sem Bandaríkjaher notar, greindi frá þessu í gærkvöldi en starfsmenn þess segja að tekist hafi að fyrirbyggja að viðkvæmar persónuupplýsingar kæmust í hendur óprúttinna aðila.

Vefur lögreglunnar lá niðri vegna tölvuhakkara

Heimasíða embættis spænska ríkislögreglustjórans lá niðri í um klukkustund í gærkvöld eftir að tölvuhakkarar réðust á síðuna. Málið er litið alvarlegum augum en embættið hefur ekki staðfest að samtökin Anonymous hafi staðið á bak við árásina. Yfirlýsing þess efnis birtist þó á heimasíðu samtakanna. Talið er að þau hafi ráðist á heimasíðu ríkislögreglustjórans vegna þess að þrír einstaklingar sem tengjast samtökunum voru handteknir á föstudaginn.

Stálu upplýsingum um 1,3 milljónir viðskiptavina

Tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi japanska tölvuleikjaframleiðandans Sega um helgina og stálu þaðan persónuupplýsingum um 1,3 milljónir viðskiptavina fyrirtækisins. Um er að ræða nöfn, fæðingardaga, netföng og lykilorð viðskiptavinanna.

Harðskeyttir hakkarar

Tölvuþrjótar hafa verið athafnasamir undanfarna daga og ráðist á tölvukerfi og heimasíður fjölmargra fyrirtækja og opinbera stofnana.

Tölvuþrjótar brutust inn á síðu CIA

Hópur tölvuhakkara, sem kallar sig Lulz Security, réðst í gærkvöld á vefsíðu bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Talið er að sami hópur hafi hakkað sig í fyrradag inn á vef EVE Online sem íslenska fyrirtækið CCP á og rekur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×