Viðskipti innlent

Undrast tímasetninguna á erlendu skuldabréfaútboði Íslands

Þrír alþjóðlegir stórbankar vinna nú að fyrstu erlendu skuldabréfaútgáfu íslenskra stjórnvalda frá því fyrir hrunið. Tímasetningin á útgáfunni kemur erlendum bankamönnum á óvart.

Fjallað er um málið í ítarlegri úttek á Reuters en þar kemur fram að bæði Ísland og Lettland hyggja nú á skuldabréfaútgáfu á alþjóðamörkuðum en bæði þessi lönd fóru illa út úr fjármalakreppunni og lentu í efnahagshruni fyrir þremur árum síðan.

Fyrir Ísland vinna nú bankarnir Barclays Capital, Citigroup og USB að skuldabréfaútgáfunni. Hafa þeir haldið fundi með fjárfestum ytra til að kynna þeim málið alla síðustu viku og funda áfram í dag og á morgun.

Einn þeirra bankamanna sem Reuters ræðir við segir að tímasetningin á endurkomu Íslands á alþjóðamarkað valdi undrun í ljósi þess að enn er ósamið í Icesavemálinu og að enn sé tekist á um lyktir þess máls við Breta og Hollendinga.

Hinsvegar gætu vaxtakjörin gert það að verkum að fagfjárfestar vilji kaupa íslensk skuldabréf. Vaxtakjörin gætu verið á pari við þau sem Ungverjaland fékk nýlega í skuldabréfaútboði en þar voru vextirnir, með álagi, tæp 5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×