Viðskipti innlent

Fyrirtækjum í alvarlegum vanskilum fjölgar áfram

Fyrirtækjum í alvarlegum vanskilum fjölgaði um 200 í maímánuði. Hefur þessum fyrirtækjum því fjölgað um 46% frá árinu 2009 og eru þau nú 6.700 talsins.

Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptaráðs þar sem fjallað er um Beinu brautina svokölluðu. Ávefsíðunni segir að um miðjan desember 2010 var undirritað samkomulag, sem kallað var Beina brautin, sem ætlað var að flýta fjárhagslegri endurskipulagning og úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að samkomulaginu standa efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Viðskiptaráð Íslands, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja.

Í samkomulaginu var gert ráð fyrir því að ljúka tillögugerð um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra fyrirtækja sem falla undir samkomulagið fyrir 1. Júní 2011. Tveir bankar hafa náð því markmiði, Arion banki og Íslandsbanki, og því ber að fagna.

Samkvæmt frétt Arion banka féllu 470 fyrirtæki undir samkomulagið og þar af er um 320 málum að fullu lokið en um 150 fyrirtæki eiga enn eftir að taka afstöðu til tilboðs bankans.

Samkvæmt Íslandsbanka fengu 250 fyrirtæki tilboð frá bankanum vegna Beinu brautarinnar. Upplýsingar um endanlega niðurstöðu innan Landsbankans liggja ekki fyrir.

Þessar jákvæðu fregnir koma þó á sama tíma og fregnir af því að alvarlegum vanskilum fyrirtækja fer fjölgandi. Þetta má m.a. sjá í nýlegri útgáfu Seðlabanka Íslands en þar kemur fram að um 6.500 fyrirtæki séu í alvarlegum vanskilum í apríl 2011 en þeim fyrirtækjum hefur raunar fjölgað um 200 í maí og eru þau nú um 6.700 talsins. Fyrirtæki í alvarlegum vanskilum hefur því fjölgað um 46% síðan í mars 2009.

Vandinn er því enn umfangsmikill og hætt við því að fjölmörg af þeim fyrirtækjum sem hafa farið í gegnum endurskipulagningu þurfi að fara aftur í gegnum skuldaúrvinnslu ef vanskil halda áfram að aukast, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×