Viðskipti innlent

Vöruskiptin hagstæð um 6 milljarða í apríl

Í aprílmánuði voru fluttar út vörur fyrir tæpa  42,0 milljarða króna og inn fyrir tæpa 36,0 milljarða króna. Vöruskiptin í apríl voru því hagstæð um 6,0 milljarða króna. Í apríl 2010 voru vöruskiptin hagstæð um 6,9 milljarða króna á sama gengi.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að fyrstu fjóra mánuðina 2011 voru fluttar út vörur fyrir 184,1 milljarð króna en inn fyrir 149,9 milljarða króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, sem nam 34,2 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 35,5 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 1,3 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu fjóra mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruútflutnings 20,2 milljörðum eða 12,3% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 36,7% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 8,7% meira en á sama tíma árið áður.  Útfluttar iðnaðarvörur voru 55,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 8,0% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls. Einnig varð aukning í útflutningi sjávarafurða og skipum og flugvélum.

Fyrstu fjóra mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruinnflutnings 21,5 milljörðum eða 16,7% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Aukning á verðmæti varð í öllum liðum innflutnings, mest í hrá- og rekstrarvöru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×