Viðskipti innlent

SF II kaupir ríflega helming í Sjóklæðagerðinni

SF II, félag í rekstri Stefnis hf., hefur keypt ríflega helmingshlut í Sjóklæðagerðinni hf. SF II er í eigu SÍA I, Bjarneyjar Harðardóttur og Helga Rúnars Óskarssonar, forstjóra Sjóklæðagerðarinnar. Sigurjón Sighvatsson mun áfram fara fyrir tæpum helmingshlut í félaginu.

Fjallað er um málið á vefsíðu Stefnis. Þar segir að Sigurjón fór fyrir kaupum á Sjóklæðagerðinni árið 2004. Frá þeim tíma hefur velta félagsins þrefaldast og útflutningur rúmlega fjórfaldast. Afkoma félagsins hefur batnað í takt við veltu félagsins þrátt fyrir þrengingar í íslensku efnahagslífi.

,,Félagið hefur búið að frábærum hópi starfsfólks sem hefur getað byggt á sterkri arfleifð með höfuðáherslu á hönnun og gæði. Þau gildi verða leiðarljós félagsins áfram, en vegna aukinna umsvifa og anna við aðalstarf mitt við framleiðslu kvikmynda var ljóst að styrkja þurfti bæði hluthafahópinn og yfirstjórn félagsins,“ segir Sigurjón Sighvatsson.

Vörur Sjóklæðagerðarinnar eru seldar í meira en 500 verslunum í 15 löndum og starfsmenn félagsins eru um 300.

Stærsti eigandi SF II er SÍA I sem er fagfjárfestasjóður í rekstri Stefnis hf. Stefnir er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 300 milljarða króna í virkri stýringu. Sjóðfélagar SÍA I eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins auk annarra öflugra fagfjárfesta.

Auk fjárfestingarinnar í Sjóklæðagerðinni hefur SÍA I ásamt meðfjárfestum keypt kjölfestuhlut í Högum hf. og kaup á meirihluta í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. eru á lokastigi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×