Viðskipti innlent

Mikilvægasta mál Hæstaréttar í sjö ár

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Málið verður endurflutt í Hæstarétti í byrjun júní.
Málið verður endurflutt í Hæstarétti í byrjun júní.
Málflutningur í máli Landsbanka Íslands (NBI hf.) gegn þrotabúi Motormax ehf. fer fram þann 6. júní næstkomandi frammi fyrir sjö dómurum Hæstaréttar. Þetta er í fyrsta sinn í sjö ár sem málflutningur fer fram fyrir sjö manna dómi. Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti var það síðast gert í svokölluðum þjóðlendumálum árið 2004. Það sem vekur athygli er að búið var að flytja málið fyrir Hæstarétti fyrir fimm dómendum, en eftir að málið hafði verið lagt í dóm var ákveðið að láta endurflytja það með sjö dómurum.

Um er að ræða mál sem bankinn höfðaði gegn þrotabúinu vegna gengistryggðra lána. Deilan snýst um 150 milljóna króna lán í fimm myntum sem gamli Landsbankinn veitti Motormax árið 2007.

Motormax var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2009. Í júlí það sama ár gerði Landsbankinn kröfu í búið að fjárhæð tæplega 276 milljónir krónur. Skiptastjóri þrotabús Motormax tilkynnti Landsbankanum það í október í fyrra að hann samþykkti ekki kröfuna eins og henni var lýst heldur samþykkti hann hana með tilliti til nýgenginna dóma Hæstaréttar Íslands í gengistryggingamálunum.

Skiptastjóri viðurkenndi því kröfu að upphæð tæplega 168 milljónir krónur en ekki að fjárhæð tæplega 276 milljónir króna. Landsbankinn mótmælti afstöðu skiptastjóra. Ekki tókst að leysa ágreininginn og því stefndi Landsbankinn þrotabúinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í febrúar síðastliðnum tók Héraðsdómur Reykjavíkur undir málflutning skiptastjórans og hafnaði kröfu Landsbankans. Bankinn áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.

Gríðarlegir hagsmunir og mikið fordæmisgildi

Í Hæstarétti eru mál ýmist flutt frammi fyrir þremur, fimm eða sjö dómurum. Afar sjaldgæft er að þau séu flutt fyrir sjö manna dómi. Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti eru ástæðurnar fyrir því að ákveðið var að endurflytja málið fyrir sjö dómurum þeir hagsmunir sem um er deilt og fordæmisgildi málsins.

Vísir veit ekki til þess að það hafi komi fyrir áður að mál hafi verið endurflutt í Hæstarétti fyrir sjö dómurum eftir að hafa verið flutt fyrir fimm dómurum. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofustjóra Hæstaréttar kemur það hins vegar fyrir af og til að mál sem hafi verið flutt fyrir þremur dómurum sé endurflutt fyrir fimm dómurum af þessum ástæðum.

Fimm dómarar kváðu upp gengisdóm í Hæstarétti þann 16. júní í fyrra. Það er einn umtalaðasti Hæstaréttardómur síðari ára. Í því máli voru gengistryggð bílalán dæmd ólögleg. Um haustið sama ár kvað Hæstiréttur svo upp dóm þar sem ákveðið var hvernig vextir af lánunum skildu reiknaðir út.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×