Handbolti

Bild: Brand hættir í júní

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiner Brand.
Heiner Brand. Nordic Photos / Bongarts
Þýska dagblaðið Bild fullyrðir í dag að Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, muni hætta í júní eftir fjórtán ár í starfi.

Brand hefur náð frábærum árangri á ferlinum en hann gerði Þýskaland að Evrópumeistara árið 2004 og svo heimsmeisturum þremur árum síðar, er keppnin fór fram í Þýskalandi.

En Þjóðverjum hefur gengið illa á síðustu stórmótum og endað í tíunda og ellefta sæti. Liðið hefur fengið mikla gagnrýni fyrir spilamennsku sína og kemur það því ekki á óvart að Brand skuli hætta nú, þó svo að samningur hans rennur ekki út fyrr en 2013.

Brand mun klára síðustu tvo leiki Þýskalands í undankeppni EM 2012, gegn Lettlandi og Austurríki. Ísland er einnig í sama riðli og í harðri baráttu við Austurríki og Þýskaland um sæti í lokakeppninni sem fer fram í Serbíu í janúar næstkomandi.

Eins og áður hefur komið fram er Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin, einn þeirra sem kemur til greina sem eftirmaður Brand. Núverandi aðstoðarmaður hans, Martin Heuberger, er einnig ofarlega á lista.

Bild fullyrðir að Brand muni tilkynna afsögn sína á blaðamannafundi á miðvikudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×