Viðskipti innlent

Lánshæfi Íslands í ruslflokki næstu tvö árin

Paul Rawkins forstjóri matsfyrirtækisins Fitch Ratings segir að lánshæfismat Íslands gæti haldist í ruslflokki hjá fyrirtækinu allt að næstu tveimur árum. Þetta kemur fram í svari Rawkins við fyrirspurn frá Bloomberg fréttaveitunni.

Rawkins segir að í nýju áliti frá Fitch sem birt var í gærdag komi fram vísbending um að matsfyrirtækið reikni ekki með að lánshæfismatið fyrir Ísland breytist á næstu 12 til 24 mánuðum. Ástæðan fyrir þessu eru gjaldeyrishöftin en samkvæmt nýjustu áætlun íslenskra stjórnvalda er ekki áformað að aflétta þeim að fullu fyrr en árið 2015.

„Alhliða afnám gjaldeyrishaftanna gæti verið skerf framá við því slíkt myndi gefa í skyn að ójafnvægið í efnahagskerfinu væri að lagast,“ segir Rawkins í tölvupósti til Bloomberg. „Gengi krónunnar myndi þá stjórnast af inn- og útflæði fjármagns.“

Þá kemur fram í máli Rawkins að aðgangur íslenska ríkisins að erlendum fjármálamörkuðum myndi einnig flýta fyrir því að lánshæfi Íslands batnaði.

Fram kemur í svörum Rawkins að lækkandi skuldatryggingaálag á Ísland hafi ekki verið þáttur í nýjasta mati Fitch en þeir hefðu tekið eftir því að það hefur lækkað að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×