Viðskipti innlent

Móðurfélag Norðuráls hagnast um 2,8 milljarða

Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls,  hagnaðist um 25 milljónir dollara eða um 2,8 milljarða kr. á fyrsta ársfjórðungi ársins. Þetta er töluvert meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam 6,3 milljónum dollara.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að niðurstaðan eftir ársfjórðunginn sé m.a. lituð af því að félagið tapaði tæplega 5 milljónum dollara á afleiðusamningum sem bundnir voru við álverð á markaðinum í London.

Logan W. Kruger forstjóri Century segir í tilkynningunni að markaðsaðstæður á álmarkaðinum séu með besta móti þessa stundina. Eftirspurn sé mikil víða í heiminum og verð á áli hátt en það stendur í rúmlega 2.750 dollurum fyrir tonnið miðað við þriggja mánaða samninga.

Logan nefnir framkvæmdir við nýtt álver í Helguvík í tilkynningunni og segir að stjórn Century vinni áfram af fullum krafti við að reyna að koma þeim á fullt skrið að nýju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×