Skoðun

Vinur eins og ég

Róbert Jack skrifar
Í Kastljósi Sjónvarpsins á þriðjudagskvöld gagnrýndi Ásta Kristrún Ólafsdóttir skólastefnuna skóla án aðgreiningar sem mjög er litið til í skólum landsins nú um stundir. Hún telur stefnuna vilja útrýma sérskólum fyrir þroskaskerta, en hún á son í Öskjuhlíðarskóla. Dóra S. Bjarnason svaraði svo fyrir hönd skóla án aðgreiningar daginn eftir og staðfesti reyndar að endanlegt markmið sé að loka öllum sérskólum og sinna þroskaskertum nemendum algerlega innan almenna skólakerfisins. Sjálfur á ég þroska­skerta dóttur og er því málið skylt. Ég hef miklar efasemdir um að almenna skólakerfið geti fyllilega sinnt þörfum þroskaskertra nemenda. Fyrir því tel ég tvenn rök veigamest og lúta þau mjög að vellíðan nemendanna.

Í fyrsta lagi er mjög erfitt að láta sér líða vel þegar maður skilur lítið sem ekkert af því sem gerist í kringum mann á meðan aðrir skilja og geta tekið þátt. Þroska­skert barn í almennum skóla er stöðugt sett í þá aðstöðu að skilja ekki það sem fram fer. Sérkennsla er þá úrræðið, en hversu góð sem hún er breytir hún ekki þeirri staðreynd að nemandinn fær ekki að upplifa þá tilfinningu að læra með öðrum og njóta námslegra ávaxta þess með sama hætti og aðrir.

Í öðru lagi er erfitt fyrir þroska­skertan nemanda að eignast vini meðal fólks sem er á allt öðru þroskastigi. Við setjum ekki venjulegt sex ára barn í 10. bekk. Þroska­munurinn er einfaldlega of mikill. Þroskaskertur nemandi upplifir sig með sama hætti og sex ára barn í 10. bekk, því hann hefur ekki forsendur til að skilja þau viðfangsefni sem samnemendur hans eru að fást við innan og utan skóla. Hlutskiptið er þá einangrun og vinaleysi.

Í stuttu máli skapar það vanlíðan að vera haldið í umhverfi þar sem maður hefur hvorki námslegar né félagslegar forsendur til að vera hluti af hópnum. Þetta ættu allir að skilja og þetta krefst þess beinlínis að þroskaskertir fái að umgangast jafningja í skólanum. Mér virðist þetta einmitt hafa verið inntakið í því sem Ásta Kristrún hafði að segja.

Það er hins vegar áhyggjuefni að Dóra sem er helsti málsvari skóla án aðgreiningar hafði ekkert markvert um þetta að segja, allavega kom það ekki fram í viðtalinu. Að vísu segir hún eftirfarandi: „Menntun með sínum líkum, það er eitthvað sem stenst heldur ekki, vegna þess að fötluð börn eins og öll önnur börn eru fyrst og fremst lík foreldrum sínum og finna samneyti með öllu mögulegu fólki, ekki bara með öðru fötluðu fólki". Þetta eru heldur myrk ummæli um foreldrana, en ef Dóra telur foreldra helsta dæmið um jafningja hefur hún ekki skilið það sem um er að ræða. Það heldur því auk þess enginn fram að í almenna skólakerfinu skorti umburðarlyndi eða væntumþykju þess sem eldri er og þroskaðri, heldur vináttu þess sem maður getur leikið við á jafningjagrunni. Dóttir mín svaraði enda stuðningsfulltrúanum sem sagðist vera vinur hennar á þá lund að hún vildi vin sem væri eins og hún sjálf.

Annað sem kannski mætti nota úr viðtalinu við Dóru til að svara ofangreindum rökum var að skóli án aðgreiningar væri viðurkennd menntastefna hjá ýmsum félögum og í mörgum löndum. Á heimspekimáli kallast þetta kennivaldsrök og eru þau skilgreind sem rökvilla. Það var líka fullt af fólki sem trúði á viðvarandi góðæri á Íslandi þótt ekki reyndist innistæða fyrir því. Við viljum rök gegn okkar rökum en ekki upptalningu á fólki sem aðhyllist skóla án aðgreiningar almennt.

Auk þessa talaði Dóra um að það þyrfti að rannsaka miklu betur hvað fælist í útilokun og einangrun. En við vitum að einangrun er raunveruleiki þroskaskertra barna í almenna skólakerfinu, það er það sem blasir við foreldrum þessara nemenda og starfsmönnum skólanna. Skóli án aðgreiningar á sér 20 ára sögu, hvað eigum við að bíða lengi eftir niðurstöðum þessara rannsókna? Önnur 20 ár? Það þætti mér ótækt. Vissulega er vel heppnuð menntun flókið samspil margra þátta, en ég trúi því ekki að við ætlum að sætta okkur við skólakerfi til framtíðar þar sem þörfum þroskaskertra fyrir vellíðun í námi og vináttu er ekki sinnt.

Hvort sem við stofnum sérdeild fyrir nemendur með væga þroskahömlun eða styrkjum Öskjuhlíðarskóla, verður að sinna þessu verkefni.




Skoðun

Sjá meira


×