Skoðun

Dagur Norðurlanda

Ragnheiður H. Þórarinsdóttir skrifar
Í dag, 23. mars, er dagur Norðulanda en dagurinn hefur um árabil verið tileinkaður norrænni samvinnu. Á þessum degi árið 1962 hittust fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna í höfuðborg Finnlands til að skrifa undir samning um náið og skuldbindandi samstarf á fjölmörgum sviðum. Samningurinn sem nefndur er Helsinkisáttmálinn, er grundvallarsamningur í norrænu samstarfi og fjallar um samstarf Norðurlandanna á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála, efnahagsmála, samgangna og umhverfisverndar. Í honum er kveðið nánar á um störf Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og hann festir í sessi formlegt samstarf þjóðþinga og ríkisstjórna Norðurlandanna. Samningurinn kveður einnig á um að Norðurlöndin skuli vinna saman á alþjóðavettvangi og hafa samráð sín á milli. Hinn upprunalegi texti samningsins hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum t.d. þegar ríkisstjórnirnar komu meiri formfestu á samstarfs sitt með stofnun norrænu ráðherranefndarinnar 1971 og þegar Grænland, Færeyjar og Álandseyjar komu inn í samstarfið árið 1983, en grundvallarhugmynd hans hefur ekkert breyst.

Helsinkisáttmálinn kveður á um fjölmörg gagnkvæm réttindi Norðurlandabúa sem við höfum um áratugaskeið vanist að taka sem sjálfsöguðum hlut við dvöl á hinum Norðurlöndunum, í ferðum eða viðskiptum milli landanna. Fjölmörg gagnkvæm réttindi hafa verið við lýði árum og áratugum saman án þess að okkur þyki það annað en sjálfsagt að njóta sömu réttinda á hinum Norðurlöndunum og þeirra sem við njótum heima hjá okkur.

Þetta nána pólitíska norræna samstarf varð ekki til á einum degi. Þjóðþing Norðurlanda höfðu lengi haft náið samstarfs sín á milli, Norðurlandaráð var stofnað árið 1952. Og á undan þessu öllu höfðu þjóðirnar sjálfar komist að nauðsyn þess að vinna saman og halda vinatengslum og stofnað Norræna félagið. Norrænu félögin voru stofnuð fljótlega eftir fyrri heimsstyrjöldina, árið 1919 í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, árið 1922 á Íslandi og 1924 í Finnlandi. Því er með réttu hægt að segja að norrænt samstarf hafi þrjár meginstoðir: Norrænu ráðherranefndina, Norðurlandaráð og Norræna félagið. Vissulega fer fram fjölbreytt og öflugt norrænt samstarf á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þessir þrír aðilar starfa að norrænu samstarfi á grundvelli þeirrar meginhugmyndar að Norðurlönd eigi eitthvað mikilvægt sameiginlegt og eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta við lausn ýmiskonar mála.

Norðurlandasamstarfið hefur notið þess frá upphafi að eiga sér víðtækan, þverpólitískan og styrkan stuðnings fólksins sem byggir Norðurlönd. Sjaldan eða aldrei hefur verið deilt af sannfæringu um hvort norrænt samstarf eigi rétt á sér, heldur einungis um leiðir að settum sameiginlegum markmiðum.

Norræna félagið gegndi mikilvægu hlutverki í tengslum við stofnun hinna pólitísku samtaka Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, og beitti sér mjög í þeirri vinnu sem leiddi til norræna vegaréfasambandsins, sameiginlega vinnumarkaðarins, samningsins um félagsleg réttindi og tungumálasamningsins, en hann fjallar um rétt okkar til að nota eigið tungumál í samskiptum við yfirvöld annarra Norðurlanda. Og ekki má gleyma vinarbæjarsamstarfi sveitarfélaga en þar gegnir Norræna félagið lykilhlutverki.

Norræna félagið á Íslandi er gamalt og gróið félag sem fyllir 9. tuginn á næsta ári. Hlutverk þess er að efla norrænt samstarf, einkum í félags-, menningar- og umhverfismálum og styrkja vináttuböndin við frændur okkar á hinum Norðurlöndunum. Félaginu hafa verið falin framkvæmd margvíslegra mikilvægra norrænna verkefna, s.s. Halló Norðurlönd, Nordjobb og norrænu bókasafnsvikunnar. Það stendur einnig fyrir tungumálanámskeiðum sem hafa notið vaxandi vinsælda. Skrifstofa félagsins aðstoðar fjölda manns í viku um flest það er varðar norræn málefni, stór og smá.

Sú hefð hefur myndast á undanförnum árum að Norrænu félögin fagni degi Norðurlanda á ýmsan hátt. Norræna félagið á Íslandi notar þennan dag m.a. til að veita viðurkenningu félagsins einstaklingi, sem hefur lagt mikið og óeigingjarnt starf af mörkum til að efla norræna samvinnu.

Að lokum vil ég óska okkur öllum til hamingju með daginn!




Skoðun

Sjá meira


×