Skoðun

Opið bréf til Menntaráðs

Ástríður M. Eymundsdóttir skrifar
Okkur foreldrum barna í Hólabrekkuskóla brá við þegar skýrsla starfshóps um sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis kom út nýverið. Þar var lagt til að Fellaskóli og Hólarekkuskóli yrðu sameinaðir á þann hátt að aldursskipting yrði tekin upp og að annar skólinn yrði yngri barna skóli og hinn eldri barna skóli. Á stefnumótandi tilllaga að vera komin til ákvörðunar fyrir upphaf skólaársins 2012-2013. Markmið þessa gjörnings á að vera að jafna samfélagsleg viðhorf til skólanna, stuðla að aukinni félagslegri blöndun og fjölbreytileika nemendahópsins. Ennfremur að styrkja þurfi stöðu unglinga í hverfinu í leik- og tómstundastarfi. Sagt er að heildarmat á starfi skólanna styðji þessar tillögur.

Þetta er gríðarlega mikið rót fyrir ríflega 800 grunnskólanemendur. Efra-Breiðholt er stórt hverfi og vegalengdir fyrir börn sem ganga í skólann langar, allt að tveir kílómetrar. Mun þetta án nokkurs vafa verða til þess að umferð um þetta barnvænasta hverfi borgarinnar eykst gríðarlega. Á þessu svæði eru ekki aðeins grunnskólar, heldur einnig einn stærsti framhaldsskóli Reykjavíkur, auk heilsugæslu, menningarmiðstöðvar og margra annarra fyrirtækja og umferðin í gegnum hverfið er þegar þung. Umferðarslys á börnum á leið í skólann hafa átt sér stað á hverju ári undanfarið. Það er því undarleg ráðstöfun að ýta undir frekari umferðarþunga með tilheyrandi mengun og slysahættu í gegnum hjarta þessa stóra barnahverfis.

Flýtir þessa gjörnings er okkur einnig óskiljanlegur. Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri sagði á fjölmennum fundi í Breiðholtsskóla að við þessar breytingar væri ekki um fjárhagslegan ávinning að ræða eingöngu faglegan. Það stangast reyndar á við skýrslu starfshópsins þar sem kemur greinilega fram að það eigi að spara. Aftur á móti ef svo er rétt hjá fræðslustjóra að eingöngu sé um fagleg rök að ræða þá hlýtur þessi flýtir að vera óþarfur. Skólastjórum skólanna er gefið eitt ár til undirbúnings. Eitt ár til að undirbúa nýja skóla, með nýrri skólastefnu, nýjum námsskrám, nýju starfsfólki, nýjum nemendum og á nýjum stað. Við teljum að skólastjórar beggja skólanna séu í fullu starfi við að stjórna skólunum og eigi að vinna vandlega og faglega að undirbúningi tekur það mun lengri tíma en eitt ár.

Við óttumst líka það rask sem þetta mun hafa í för með sér fyrir þessa ríflega 800 grunnskólanemendur og starfsfólk. Þetta eru miklar breytingar og ef við  yfirfærum þetta á stórfyrirtæki þar sem væru 800-1000 starfsmenn er næsta víst að svona róttækar breytingar væru undirbúnar vandlega. Farið yrði vel yfir skipulag breytinganna, gerð yrði heildargreining á þeim, á áhrifum þeirra á starfsfólk til góðs eða ills, hvaða áhrif þetta hefði á stefnu fyrirtækisins, þess yrði gætt að móta stefnuna með þátttöku allra í fyrirtækinu og að upplýsa alla um fyrirhugaðar breytingar þannig að ferlið kæmi ekki niður á starfsfólkinu. Er ekki sjálfsagt að börnin okkar njóti þess sama?

Það má heldur ekki gleyma að nemendum þykir vænt um skólann sinn. Þeir hafa alist upp við ákveðna skólamenningu, mörg jafnvel í sama skóla og foreldrar þeirra, þau eiga góðar minningar sem tengjast skólanum og heimsækja hann reglulega til þess að rifja þær upp. Það er því ekki undarlegt að þessar breytingar vekji upp sterkar tilfinningar hjá nemendum, bæði núverandi og fyrrverandi og foreldrum.

Við höfnum því þessum sameiningartillögum skólanna. Við viljum halda okkar skóla eins og hann er en um leið teljum við að hægt sé að vinna að markmiðum skýrslunnar á margvíslegan hátt. Það eru spennandi tækifæri í auknu samstarfi skólanna, til dæmis með sameiginlegu vali á unglingastigi sem getur aukið fjölbreytni náms og stuðlað að samheldni unglingahópsins í hverfinu. Við teljum líka að mikilvægt sé að endurskoða og byggja upp sterkt félagslíf með þátttöku allra unglinga í 111 Breiðholt.

Fyrir hönd aðgerðahóps foreldra í Hólabrekkuskóla




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×