Skoðun

Samráðsleysi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs og umhverfisráðherra

Forsvarsmenn níu félagasamtaka skrifar
Mánudagurinn 28. febrúar var svartur dagur fyrir útivistarfélög og ferðaþjónustu á Íslandi en þá staðfesti umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Við stofnun þjóðgarðsins voru gefin loforð frá aðilum í stjórnsýslunni um að engin skerðing yrði á hefðbundinni notkun garðsins, s.s. veiðum og umferð. Á þessu loforði var síðan sérstaklega tekið í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eins og kemur fram í 3. mgr. 12 gr. laga um þjóðgarðinn:

„Svæðisráðin, hvert á sínu svæði, skulu vinna tillögu að verndaráætlun í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Við gerð verndaráætlunar skal svæðisráð hafa samráð við eigendur lands innan þjóðgarðs á viðkomandi svæði, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu."

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráðin höfðu því tækifæri til að hafa gott samráð um stofnun þjóðgarðsins og leggja grunn að víðtækri sátt um þetta verkefni. Þetta leit vel út þegar svæðisráðin byrjuðu að vinna og virtist stefna í opið og gegnsætt samráðsumhverfi. Hinsvegar bar fljótt á pukruskap og feluleikjum og aðeins hægt að nálgast upplýsingar eftir krókaleiðum. Eina raunverulega aðkoma margra stærstu útivistarhópa og ferðaþjónustuaðila var síðan í gegnum lögboðið athugasemdaferli.



 

Það voru sendar inn mörg þúsund athugasemdir við stjórnunar- og verndaráætlunina frá einstaklingum, útivistarhópum og ferðaþjónustuaðilum, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við stjórnunar- og verndaráætlunina og undirbúningsvinnu við hana. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs svaraði öllum þessum athugasemdum með stöðluðu dreifibréfi, þar sem einungis var svarað hluta af þeim athugasemdum sem lagðar höfðu verið fram. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sendi síðan stjórnunar- og verndaráætlunina til staðfestingar hjá umhverfisráðherra haustið 2010, nánast án þess að taka nokkurt tillit til athugasemda varðandi veiðar og umferð innan þjóðgarðsins.

Margir útivistarhópar fóru á fund umhverfisráðherra og hún kallaði fulltrúa margra félagasamtaka á sinn fund. Þar lýsti hún yfir vilja til að ná sáttum og bað um vinnufrið til að ná því fram. Þegar stjórnar- og verndaráætlunin var síðan staðfest af umhverfisráðherra án nokkurra breytinga og ljóst að ekkert tillit væri tekið til þeirra athugasemda sem bárust, kom í ljós að sáttavilji ráðherra var bara fyrirsláttur til að tefja málið. Mistökin sem gerð voru í samráðs- og athugasemdaferlinu við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hafa skaðað mjög allt traust á milli stjórnvalda og útivistarhópa og ferðaþjónustuaðila hér á landi. Eftir stendur yfirgangur og tillitsleysi stjórnvalda gagnvart flestum hagsmunaaðilum sem að málinu koma.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs í umboði umhverfisráðherra ætlar að haga eftirliti með því að ferðafólk og ferðaþjónustuaðilar aki ekki lokaðar leiðir í þjóðgarðinum eða veiði ekki á lokuðum svæðum. Líklega verður sett upp sérstök hálendislögregla og ferðamenn settir í varðhald og kærðir.

Framundan eru ný náttúruverndarlög, stækkun friðlands í Þjórsárverum, landnýtingaráætlun, Geo Park vísindagarðar, endurskoðun villidýralaga og fjöldi friðlýsinga í nýrri náttúruverndaráætlun. Það er nokkuð ljóst að í þessum málum munu útivistarhópar og ferðaþjónustuaðilar haga sínum málum öðruvísi, taka vara á öllum aðgerðum stjórnvalda til samráðs og stunda öflug árásarsamskipti til að ná sínum fram.

Skynsamlegast hefði verið að vinna stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs í betra samstarfi við þá hagsmunahópa sem hlut eiga að máli, en þessir hópar hafa margsinnis boðið stjórnvöldum, stjórn þjóðgarðsins og svæðisráðum samstarf og samvinnu í málefnum sem tengjast hálendi Íslands, en mætt hroka og yfirgangi. Það stefnir því í stríð sem stjórnvöld munu tapa, en því miður líklega eftir að hafa eitt miklum fjármunum í eftirlit, handtökur og kærur á ferðafólk á hálendi Íslands.

Við undirritaðir aðilar skorum á umhverfisráðherra og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að hætta strax þessum skollaleik sem boðið hefur verið upp á síðustu ár við stofnun þjóðgarðsins, tryggja raunverulegt samráð strax í dag og hleypa okkur sem hagsmunaaðilum að borðinu og hlusta á okkar sjónarmið. Gerum Vatnajökulsþjóðgarð að stað þar sem Íslendingar eru velkomnir, hvort sem þeir eru hestafólk, sleðafólk, hjólafólk, jeppafólk, göngufólk, veiðimenn eða annað ferðafólk.

Jeppavinir – Þorvarður Ingi Þorbjörnsson, formaður

Landssamband hestamanna – Þorvarður Helgason, stjórnarmaður

Landssamband vélsleðamanna – Birkir Sigurðsson, forseti

Landssamtökin Ferðafrelsi – Sigmar B. Hauksson, formaður

Vélhjólaíþróttaklúbburinn Vík – Hrafnkell Sigtryggsson, formaður

Ferðaklúbburinn 4x4 – Sveinbjörn Halldórsson, formaður

Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir – Jakob Þór Guðbjartsson, formaður

Skotvís – Kristján Sturlaugsson, varaformaður

Skotreyn – Friðrik Rúnar Garðarsson, formaður




Skoðun

Sjá meira


×