Skoðun

Er fagleg ráðning glæpur?

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Forsætisráðherra skipaði í stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti, þann einstakling sem reyndur mannauðsráðgjafi og embættismenn ráðuneytisins töldu hæfastan. Jóhanna fór að ráðum fagaðilans og embættismanna. Enda er hún sá íslenskra stjórnmálamanna sem hvað mest hefur talað og barist gegn pólitískum ráðningum. Hún féll ekki í þá gryfju að ráða flokkssystur sína, gegn samdóma hæfnismati!

Sá sem metinn var hæfastur er einstaklingur án pólitískra tengsla, en með langan og farsælan starfs- og kennsluferil á því sviði sem hið auglýsta starf tekur til. Feril sem ég þekki vel. Einn umsækjenda, sem metinn var 5. hæfastur, kærir ráðninguna með vísan til jafnréttislaga. Þar segir, að ef um tvo jafnhæfa umsækjendur er að ræða og það hallar á annað kynið í viðkomandi starfsflokki, skuli það kynið sem á hallar, ráðið í stöðuna.

Kærunefnd jafnréttismála kýs að hafa faglegt hæfnismat mannauðsráðgjafans að engu (atriði 82 í úrskurðinum), með þeim rökstuðningi að hún skilji ekki álitið. Nefndinni hefði verið í lófa lagið og raunar skylt, að leita skýringa frá mannauðsráðgjafanum, sem ekki var gert, eða leita álits annars fagaðila á sviði hæfnismats. Þeir þrír lögfræðingar sem sitja í kærunefndinni hafa ekki þá fagþekkingu.

Pólitískir blóðhundar í stjórnarandstöðu fara mikinn vegna þessa úrskurðar og ákvörðunar forsætisráðherra. Fremst fer Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fv. menntamálaráðherra. Konan, sem þorði ekki að skipa útvarpsstjóra, án pólitískrar handstýringar Davíðs Oddsonar. Hvar hefði fagleg ráðning verið lífsspursmál fyrir stofnun, ef ekki þar? Formaður þingflokks Samfylkingarinnar, náin vinkona kæranda tjáir sig opinberlega og lítur málið "mjög alvarlegum augum". Því miður ná hæfisreglur stjórnsýslulaga ekki til þingmanna, en samkvæmt skýringarriti Páls Hreinssonar um lögin, skapar "náin vinátta" vanhæfi.

Vaxandi kröfur eru um faglegar ráðningar hins opinbera. Í frumvarpi forsætisráðherra til stjórnarráðslaga eru tillögur sem eiga að tryggja slíkt varðandi skrifstofu- og ráðuneytisstjóra. Að frumkvæði Jóhönnu voru sett lög um skipanir dómara sem tryggja faglegar ráðningar.

Forsætisráðherrar hvers tíma munu því hvorki geta látið ráða besta vin sinn, son, né uppeldisbróður inní dómskerfið. Þökk sé einarðri framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur.




Skoðun

Sjá meira


×