Skoðun

Kynbundinn launamunur

Stefán Einar Stefánsson skrifar
Samkvæmt launakönnun VR mælist kynbundinn launamunur félagsmanna rétt um 10%. Erfið­lega virðist ganga að draga úr þessu óréttlæti því á síðustu árum hefur þessi munur ekki minnkað svo nokkru nemi. Eitt af því sem skýrir þennan mun er sú staðreynd að konur eru alla jafna hógværari í kröfum sínum þegar kemur að hinu árlega launaviðtali sem félagsmenn eiga rétt á. Þannig hafa rannsóknir leitt í ljós að þegar karlar og konur eru spurð hvað þau vilji hafa í laun, reynist munurinn meira en 10%. Af þeim sökum má ætla að munurinn muni aukast eitthvað frá því sem nú er, verði ekki brugðist við.

Aðferðin

Til dagsins í dag hefur VR lagt áherslu á að hvetja konur til að sækja rétt sinn af fullum krafti. Launakönnun félagsins, sem félagsmönnum gefst kostur á að taka þátt í, er öflugt tæki í höndum þess sem vill semja um launin sín því hún gefur til kynna hvernig kaupin á eyrinni gerast á hverjum tíma. Nú þegar gefið hefur á bátinn og fyrirtækjastjórnendur eru ólíklegri en áður var til þess að hækka laun, utan við það sem kjarasamningar kveða á um, er mikilvægt að leita nýrra leiða til að berjast gegn því samfélagsmeini sem launamunur kynjanna er. Af þeim sökum hef ég kynnt nýja leið sem ég tel að geti stutt við bakið á konum í þeirri baráttu sem felst í því að útrýma kynbundnu launamisrétti.

Launavog VR

Ég tel að VR eigi að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og einkum og sér í lagi þeirra sem hallar á. Ég tel að formaður VR, með stuðningi kjarasviðs félagsins, eigi að leita samninga við stjórnendur fyrirtækja um að á þeirra eigin vettvangi, þ.e. innan veggja tiltekinna fyrirtækja, sé farið ofan í saumana á því hver launamunurinn mælist þar. Þegar það sést svart á hvítu, en ekki almennt eins og í launakönnunum, eru meiri líkur til þess að stjórnendurnir, séu þeir ærlegir einstaklingar, vilji bregðast við og koma í veg fyrir misréttið. Sé hægt að fá stjórnendur stórra fyrirtækja í þennan leiðangur með VR er hægt að koma á fót vottunarferli sem kalla má „launavog VR". Sú vottun myndi fela það í sér að ef forsvarsmenn kjaramála hjá félaginu hafa fullvissað sig um að tiltekið fyrirtæki sé að taka á launamisréttinu með markvissum hætti, fái viðkomandi fyrirtæki vottun sem þátttakandi í launavoginni. Launavogin vísar til þeirrar vogar sem réttlætisgyðjan notaðist við. Munurinn á henni og VR er sá að VR ætlar ekki að hafa bundið fyrir augun í mælingum sínum, heldur ráðast að rót vandans.

Aðferð sem virkar?

Einhverjir kunna að halda að þessi aðferð sé vonlaus í framkvæmd. Margt bendir þó í aðra átt. Ég hef rætt við fyrirtækjastjórnendur sem segja sig reiðubúna í þetta verkefni. Þá er einnig ljóst að fyrirtæki í dag takast á við ýmiss konar vanda, ekki aðeins rekstrarlegan heldur einnig ímyndarlegan. Fyrirtæki sem fær vottun um að það sé að taka á alvarlegri meinsemd eins og launamisrétti kynjanna er líklegt til þess að hljóta náð fyrir augum fólks, þ.e. viðskiptavina. Má vera að lífeyrissjóðir væru líklegri en ella til að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum? Vottun sem gefur fyrirtæki „heilbrigðisvottorð" í þessum efnum mun njóta velvildar margra. Að minnsta kosti minnar.

 




Skoðun

Sjá meira


×