Skoðun

Aukinn kaupmátt og mannsæmandi kjör

Helga Guðrún Jónasdóttir skrifar
Stóra mál yfirstandandi kosninga í VR, er að skipuð verði forystusveit sem getur rétt félagið við og tekist samhent á við gríðarlega kaupmáttarskerðingu og ört vaxandi misskiptingu. Mikilvægasta forsendan fyrir því er, að nýr formaður verði kosinn sem er ótengdur núverandi stjórn. Að öðrum kosti grassera þau átök og flokkadrættir bara áfram, sem dregið hafa þrótt úr félaginu undan­farin misseri.

Stjórnvöld hafa með vanhugsuðum og ósamstíga aðgerðum stuðlað að áframhaldandi atvinnuleysi og keyrt kaupmátt millitekjufólks niður með þeim afleiðingum að vaxandi misskipting ógnar nú undirstöðum íslenska velferðarkerfisins. Laga verður kjarabaráttu félagsins að þessum breyttu aðstæðum, með því að glæða hana nýrri hugsun og nýjum áherslum. Beina verður sjónum félagsins í auknum mæli að kjaraskerðandi aðgerðum stjórnvalda og krefjast þess að byrðum kreppunnar verði dreift með sanngjarnari hætti. Krefjast verður leiðréttinga á ofurskattahækkunum, hækkunar persónuafsláttarins og endurskoðunar á núverandi útfærslu verðtryggingarkerfisins svo að dæmi um brýnar aðgerðir séu nefnd.

VR þarf m.ö.o. að verða á ný millitekjufólki sú brjóstvörn sem það hefur verið og á að vera. Hrynji kjarabarátta millitekjufólks, sem er langstærsti hópurinn innan VR, verður róðurinn enn þyngri hjá þeim sem minnst hafa handanna á milli.

VR þarf einnig að líta inn á við og endurskoða lykilþætti í starfseminni með hliðsjón af breyttum aðstæðum. Réttindi félagsmanna hafa verið tekjutengd um of, með hliðsjón af hratt dvínandi kaupmætti, auk þess sem varasjóðurinn er ekki að nýtast félagsmönnum sem skyldi. Einnig verður að styrkja innviði markaðslaunakerfisins og „Fyrirtækis ársins", svo að þessar mikilvægu stoðir fái staðist það álag sem kreppan, atvinnuleysi og vaxandi atvinnuóöryggi hefur í för með sér. Síðast en ekki síst verður VR að standa sem aldrei fyrr í fæturna gagnvart atvinnurekendum og snúa vörn í sókn. Aukinn kaupmáttur og mannsæmandi kjör – við sættum okkur ekki við neitt minna!




Skoðun

Sjá meira


×