Skoðun

Líbía og ábyrgð alþjóðasamfélagsins

Árni Þór Sigurðsson skrifar
Átökin í Líbíu og hernaðarleg íhlutun nokkurra vestrænna ríkja í landið vekja miður góðar tilfinningar. Vandinn sem við blasir er ekki auðleystur, ekki frekar en annars staðar þar sem stríðsátök af hvaða rótum sem er geysa. Þeir sem berjast fyrir friði, mannréttindum og lýðræði, hafa ævinlega mótmælt hvers konar hernaðarhyggju og hernaðarlegri íhlutun enda sanna dæmin mýmörg að slíkt er sjaldnast til þess fallið að leysa þann vanda sem þeim er í orði kveðnu ætlað að leysa. Á hinn bóginn eru einnig dæmi um hitt, að óð stjórnvöld hafi komist upp með þjóðarmorð og skelfilega stríðsglæpi meðan alþjóðasamfélagið aðhafðist ekkert til að afstýra slíkum hörmungum.

Í þessum mánuði hafa tvívegis farið fram utandagskrár­umræður á Alþingi um ástandið í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og um ábyrgð vestrænna ríkja á því hvernig komið er. Þar má m.a. finna þrjár ræður sem ég hef flutt um málefnið. Þar hef ég m.a. bent á umfangsmikla vopnasölu þróaðra ríkja til einræðisherra í þessum heimshluta og að margir leiðtogar vesturveldanna hafi gjarnan hampað mönnum á borð við Múbarak og Gaddafí þegar svo býður við að horfa.

Þrátt fyrir að eins konar sam­trygging þagnar­innar hafi einkennt afstöðu innan þeirra ríkja sem stórtækust eru í vopnasölu blasir tvískinnungurinn og hræsnin við og er raunar orðið að umræðuefni í gagnrýnum fjölmiðlum austan hafs og vestan. Þar er nú kviknuð grundvallarumræða varðandi sölu vopna til Líbíu sérstaklega og eins siðferðið í því að hagnast á sölu skriðdreka, flugskeyta og orrustuþotna til Gaddafís sem svo beitir þeim gegn borgurum sínum. Á sama tíma og athyglin beinist að Líbíu fara stjórnar­herrarnir sínu fram gegn almenningi í Jemen og Barein. Og þá er eðlilega spurt hver sé ábyrgð vestrænna ríkja gagnvart almennum borgurum sem nú eru fórnarlömb ofbeldisverka og vígtóla einræðisherrans Gaddafís og annarra þvílíkra. Hvernig gerir alþjóða­samfélagið mest gagn? Er líklegt að hernaðar­íhlutun, t.d. loft­árásir, þjóni hags­munum almennings? Væri þá rétt að hafa hugfast mislukkaðan og dýrkeyptan lofthernað í Írak og á Balkanskaga.

Að sjálfsögðu ber að fagna og styðja þá kröfu um lýðfrelsi og endalok kúgunar og ánauðar sem farið hefur yfir arabaheiminn. Um leið verður að gagnrýna tvöfeldnina í afstöðu vestrænna hernaðarvelda. Það er eindregin afstaða mín að allar aðgerðir af hálfu alþjóðasamfélagsins (að svo miklu leyti sem það er skýrt skilgreint fyrirbæri) verði að byggjast á víðtækri samstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í umboði þeirra. Öryggisráðið, sem tekur ákvarðanir af þessum toga, er því miður ekki lýðræðislegur vettvangur og er löngu tímabært að gerðar séu gagngerar breytingar á skipan þessara mála innan SÞ.

En samþykkt Öryggisráðsins er engu að síður miðað við núverandi skipan mála, forsenda fyrir slíkum aðgerðum. Enda þótt ályktun ráðsins nr. 1973 hafi verið samþykkt mótatkvæðalaust var hún ekki óumdeild og sumar þjóðir sem sátu hjá í ráðinu, auk Arababandalagsins, eru gagnrýnar á þróun mála og telja álitamál hvort framfylgd loftferðabannsins sé þegar komin út fyrir umboð Sameinuðu þjóðanna.

Ég tel það forsendu þess að stuðningur geti orðið almennur við fjölþjóðlegar aðgerðir að þær fari fram í fullu umboði Sameinuðu þjóðanna og þar má enginn efi vera á ferðinni. Reynslan ætti að kenna okkur að atburðarásin getur fljótt tekið völdin og afleiðingarnar geta orðið skelfilegar fyrir allan almenning í landinu.




Skoðun

Sjá meira


×