Skoðun

Eygló og evran

Ingimundur Gíslason skrifar
Í Fréttablaðinu 4. mars sl. lýsir Eygló Harðardóttir þingmaður Óskalandinu, þar sem sterkir stjórnmálamenn og konur stjórna efnahagsmálum og peningamálum Íslands af festu og öryggi. Í Óskalandinu fella menn ekki gengi krónunnar til að ná fram skammtímalausn á efnahagsvanda þjóðarinnar. Í Óskalandinu færa stjórnvöld ekki fjárhæðir frá einum þjóðfélagshópi til annars.

En því miður. Íslendingar búa ekki í Óskalandinu. Veiklunda pólitíkusar hafa verið iðnir við að notfæra sér veikburða gjaldmiðil til þess að að ná fram skammtímamarkmiðum. Eru einhverjar líkur á því að það muni breytast? Svari hver fyrir sig.

Eygló hittir naglann á höfuðið þegar hún segir að „með upptöku evru sé ábyrg stjórnun efnahagsmála jafnvel enn brýnni". Þetta er mergurinn málsins. Stór víðtækur gjaldmiðill sem nær til margra landa neyðir stjórnvöld og hagsmunasamtök til traustra langtímaaðgerða í efnahags- og peningamálum.

Og saga sænsku krónunnar er ekki bara ein sólskinssaga. Nú kvarta stór útflutningsfyrirtæki yfir of sterkri krónu.

Svo er það stórpólitíska hliðin á þessu máli. Þar á ég við það sem Íslendingar vilja helst ekki ræða. Eistlendingar tóku nýlega upp evru. Eistland er eitt af mörgum löndum í Evrópu þar sem fólk man hörmungar stórstyrjalda. Á Íslandi eru hvergi fjöldagrafir. Íslendingar græddu stórfé í síðustu heimsstyrjöld. Evrópusambandið og sameiginlegur gjaldmiðill er líka tæki til að reyna að koma í veg fyrir að saga Evrópu endurtaki sig hvað varðar styrjaldir og fjöldamorð.

 






Skoðun

Sjá meira


×