Skoðun

Urriðafossvirkjun

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
Það þurfa að liggja gífurlega sterk efnahagsleg rök fyrir því að eyðileggja íslenska náttúru með gröfum, jarðýtum og sprengjum. Þessu hljóta allir Íslendingar að vera sammála. Að eyðileggja ósnortna náttúru er óafturkræf framkvæmd sem mun vara um langa framtíð eða þar til náttúran tekur sjálf í taumana með eldgosi, jarðskjálfta eða öðrum náttúruhamförum. Með eyðileggingunni rænum við komandi kynslóðir gleðinni við að upplifa, sjá og hrífast. Jafnframt rýrum við tækifæri þeirra til að lifa góðu lífi og nýta landsins gæði  sér til lífsviðurværis.

Umdeildar framkvæmdir

Þegar ráðast á í umdeildar framkvæmdir sem hafa mikla eyðileggingu á ósnortinni náttúru í för með sér þurfa að liggja fyrir því góð rök. Fyrirtækjum sem ætla ráðast í slíkar framkvæmdir er gert að skila inn skýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Skýrslurnar fara í opið kynningarferli og eru aðgengilegar öllum. Þetta eru oft miklar, dýrar og ítarlegar skýrslur um fyrirhugaða eyðileggingu á náttúrunni sem liggur þó oftast ljós fyrir.   

Efnahagsleg áhrif

Það væri sanngjarnt og eðlilegt að fyrir lægju sambærileg gögn um efnahagsleg áhrif framkvæmdar fyrir þjóðina áður en endanleg ákvörðun um framkvæmd er tekin. Skýrsla sem væri aðgengileg öllum og færi í opið kynningarferli. Það er alger forsenda fyrir því að sátt náist um nýtingu auðlindanna. Efnahagslegu áhrifin fyrir þjóðina í heild þurfa að vera alveg augljós og liggja á borðinu.  Í dag eru engin slík gögn lögð fram. Þvert á móti eru efnahagsáhrifin einkamál fyrirtækjka með hámarksgróða einan að leiðarljósi og oftast eru þau leyndarmál. Hagnaðurinn, ef einhver er, er oftast til skamms tíma og fer í að greiða hærri laun til stjórnendanna. Þjóðin hagnast lítið sbr. Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði.

Sjálfbær þróun

Þessu þurfa stjórnvöld að breyta. Þegar stórar ákvarðanir um umdeildar framkvæmdir eru teknar þurfa að liggja fyrir sambærileg gögn um efnahagslegu áhrifin og lögð eru fram um umhverfisáhrifin. Það sama á reyndar líka við um félagslegu áhrifin. Síðan þarf að vega saman og meta þessa þrjá þætti. Og efnahagslegu áhrifin þurfa augljóslega að réttlæta náttúrufórnirnar og koma samfélaginu öllu til góða. Ákvarðanir sem teknar eru einungis á efnahagslegum forsendum fyrirtækja eru vondar fyrir þjóðina hvort sem litið er til lengri eða skemmri tíma.

 




Skoðun

Sjá meira


×