Skoðun

Að gera ranga hluti rétt - ÉG þjóðfélagið

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
,,Hvað þarf ÉG að gera til að sveitarstjórnin samþykki framkvæmdina MÍNA?" Þetta er dæmigerð spurning sem varpað er fram þegar framkvæmdaaðilar hyggjast hefja framkvæmdir í sveitarfélagi. Svarið er oft augljóst og einfalt og spurningin óþörf: ,,Að fara eftir skipulaginu og þeim skilmálum og leikreglum sem gilda." Spurningin fjallar oft bara alls ekki um það. Það stendur nefnilega ekki til að fara eftir skipulaginu og leikreglunum. Spurningin fjallar um hvernig get ÉG, með hjálp sveitarfélagsins, sniðgengið leikreglurnar, túlkað þær eða breytt þeim fyrir MIG svo ÉG geti fengið það sem ÉG vill.

ÉG framkvæmdir

Þetta er í hnotskurn sá vandi sem sveitarfélögin standa frammi fyrir gagnvart mörgum sem vilja framkvæma. ÉG hefur gert sér í hugarlund fyrirfram hvað hann vill framkvæma og hvernig hann vill framkvæma það. Síðan hefst baráttan við skipulagsyfirvöld. Stundum er enginn ágreiningur um framkvæmdina en hún þarf að vera inn á skipulaginu sem framkvæmt er eftir. Stundum eru þetta óverulegar framkvæmdir og frávik sem hafa lítil áhrif og eðlilegt er að liðka fyrir. En stundum eru þetta stórar og umdeildar framkvæmdir sem hafa gífurleg áhrif á allt umhverfi, efnahag og samfélag langt út fyrir sveitarfélagið, til góðs eða ills. Þar sem ágreiningur er um framkvæmdir þá er umhverfisþátturinn oftast grandskoðaður en grundvallarspurningum um efnahags- og félagsleg áhrif er nánast ósvarað.

ÉG leikreglur

Oft heyrist að sveitarfélögunum hafi verið fengið of mikið vald þegar skipulagsvaldið var fært til þeirra. Það má þó fullyrða að það skiptir ekki meginmáli hver hefur þetta vald, heldur hvernig sá sem hefur það fer með það. Og ekki síður hvernig þeir sem þurfa að framkvæma umgangast leikreglurnar. Þeir eiga það nefnilega margir sameiginlegt að sætta sig illa eða alls ekki við að fara eftir leikreglunum sem sveitarfélögunum er gert að framfylgja samkvæmt lögum. Valdi fylgir ábyrgð og skipulagsvaldi fylgir mikil ábyrgð því það snýst alltaf um breytingar á náttúru og umhverfi sem hafa efnahagsleg og félagsleg áhrif á samfélagið. Þá er líka mikilvægt að ÉG reyni ekki að misnota aðstöðu sína og til að sniðganga leikreglurnar eða laga þær einhliða að sínum þörfum.

ÉG lög

Í lögunum sem málið varða kemur skýrt fram að hagur heildarinnar skuli hafður að leiðarljósi og tekinn fram yfir hag einstaklinga eða MÍN við skipulagsgerð. Það getur Þó verið erfitt fyrir sveitarfélögin að standa á móti þeim sem vilja ekki eða ætla ekki að fara eftir leikreglunum. Einkum þegar ÉG er stórt fyrirtæki, jafnvel í eigu opinberra aðila, sem hefur yfir að ráða ótakmörkuðu frjármagni sem það getur veitt inn í sveitarfélögin m.a. í formi gjafa. Og ÉG gefst sjaldnast upp. Ef sveitarfélögin reyna að malda í móinn eða spyrna við fótum þá er sveitarfélagið orðið á móti MÉR og á það á hættu að missa af eða að ÉG fari í mál við það. Nái ÉG sveitarfélginu þannig á sitt band þá er sá næsti sem veitir fyrirstöðu lögsóttur í staðinn. Það gildir nefnilega ekki bara um sveitarfélögin heldur almennt að það er erfitt að framfylgja lögum ef ekki er vilji til að fara eftir þeim. Hvað þá ef hægt er að eiga von á að dómstólar túlki þau eftir því sem EKKI stendur í þeim.




Skoðun

Sjá meira


×