Skoðun

Hver á að sjá um barnið mitt eftir skóla?

Ingunn Margrét Óskarsdóttir skrifar
Í umræðu um borgarmálin eru ofarlega á baugi núna hugmyndir um allskonar sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilia. Ég starfa sjálf sem verkefnisstjóri á frístundaheimili í Reykjavík og hef starfað sem slíkur síðan 2003. Þar á undan starfaði ég sem umsjónarmaður yfir heilsdagsskólanum í þeim skóla sem frístundaheimilið stendur við. Mig langar að bera saman mína upplifun á að vinna á báðum stöðum, sérstaklega af því að í dag eru raddir um að starfsemi frístundaheimilanna fari aftur undir rekstur skólanna og að það eigi að hafa í för með sér faglegan og rekstrarlegan ávinning en því er ég engan veginn sammála.

Ef við byrjum á að skoða samanburð á þeirri þjónustu sem var í boði varðandi vistunartíma barnanna, þá var skólinn með meiri sveigjanleika þar sem innheimt var fyrir hvern klukkutíma sem barnið nýtti og voru tímarnir taldir í lok tímabilsins og sendir í innheimtu. Nauðsynlegt var fyrir starfsfólk heilsdagsskólans að hafa kladdann í lagi og fór oft mikill tími og orka í hann, sem varð til þess að heilsdagsskólinn varð hálfgerð stoppustöð þar sem mikið rennerí var á börnum og endalausar símhringingar. Í frístundaheimilinu eru börnin skráð ákveðna daga og innheimt samkvæmt því en ekki eftir nýtingu klukkutíma.

Þetta gerir það að verkum að börnin dvelja lengur hjá okkur á daginn og fá því að taka þátt í og njóta þess starfs sem boðið er uppá. Fólk er að kaupa pláss fyrir barnið sitt á stað þar sem verið er að vinna faglegt starf og boðið er upp á val á milli margra spennandi tilboða sem snúa að frítíma og áhugasviði barnsins. Eftir að hafa verið með foreldra sem áttu börn hjá mér bæði í heilsdagsskólanum og í frístundaheimilinu, finnst mér áberandi hvað foreldrar eru spenntari fyrir því að vita hvað við erum að gera með börnunum og þátttakan er meiri. Einnig má nefna að full nýting á plássi í heilsdagsskólanum voru rúmar 15.000 krónur á meðan gjaldið fyrir fulla nýtingu á plássi frístundaheimilisins er í dag 10.040 kr og síðdegishressingin er 2.900 krónur sem gerir 12.940 krónur. Á þessu má sjá að full nýting á vistun í frístundaheimilinu er mun ódýrari en hún var hjá heilsdagsskólanum.

Síðdegishressing er hressing sem börnunum er boðið uppá þegar þau koma í frístundaheimilið að skóla loknum. Þessi hressing var einnig í boði í heilsdagsskólanum og sá þá starfsfólk í eldhúsi skólans um að kaupa inn hráefni, gera matseðil, undirbúning og framreiðslu. Einnig sáu þau um frágang og var snætt í matsal skólans og gat hvorki starfsfólk heilsdagsskólans, né börnin haft áhrif á hvað væri í boði. Síðdegishressingin var höfð kl. 15:00 sökum skipulags og frágangs á matsal og eldhúsi skólans og sleit það daginn verulega í sundur fyrir starfsemi heilsdagsskólans. Í frístundaheimilinu er síðdegshressingin í boði fyrir börnin um leið og þau koma úr skólnum til okkar, því hádegismatur fyrir þennan aldur er í boði frá kl. 11:30 – kl.12:00 og eru börnin því oft orðin svöng þegar þau koma til okkar. Innkaup á hráefni, matseðill og framreiðsla er í höndum starfsfólks frístundaheimilisins og fá börnin að koma með hugmyndir að því hvað er á boðstólum og aðstoða við undirbúning og frágang. Börnin sjá einnig um að skammta sér sjálf, smyrja og hella í glösin og mikið er lagt upp úr að bjóða upp á fjölbreytta fæðu. Síðdegishressingin er hugsuð sem næðisstund með heimilslegu ívafi þar sem börn og starfsmenn setjast niður í frístundaheimilinu og spjalla saman yfir matnum.

Vikudagskrá í heilsdagsskólanum var skipulögð að hluta til af umsjónarmanni heilsdagsskólans og stundum var boðið upp á hópastarf sem var þá í umsjón kennara skólans. Í frístundaheimilinu er boðið upp á fjölbreytta dagskrá sem starfsfólk frístundaheimilisins ákveður í samstarfi við börnin útfrá áhugasviði þeirra og hafa börnin mikið að segja um hvað er gert. Við reynum eftir bestu getu að koma til móts við þeirra hugmyndir og óskir og höfum til þess fjármagn sem úthlutað er til frístundaheimilisins frá frístundamiðstöðinni miðað við fjölda barna í byrjun annar. Þá upphæð hefur verkefnisstjóri til rekstrar á frístundaheimilinu hvort sem er í ferðir með börnin, kaup á leikföngum, spilum eða föndurefni. Í heilsdagsskólanum var ekkert fjármagn eyrnarmerkt starfseminni og þurfti því stundum að fara ýmsar leiðir til að fá það efni sem til þurfti. Sem umsjónarmaður heilsdagsskólans hafði ég engar fjárhagslegar forsendur til að skipuleggja starfsemina.

Starfsmannamál breyttust töluvert þegar ÍTR tók við rekstrinum. Þegar heilsdagsskólinn starfaði var samnýting á starfsfólki þannig að starfsmenn unnu í skólanum fyrir hádegi og í heilsdagsskólanum eftir hádegi. Á frístundaheimilunum starfar bæði starfsfólk sem vinnur í skólanum fyrir hádegi sem og námsmenn. En einnig er samnýting á starfsfólki á milli deilda inna ÍTR þannig að fólk vinnur bæði í frístundaheimili og í félagsmiðstöð. Í heilsdagsskólanum var gert ráð fyrir 15 börnum á hvern starfsmann en ekki var gert ráð fyrir stuðningi fyrir þau börn sem áttu rétt á honum í skólanum, né heldur þeim sem þurftu hlutastuðning. Einhverft barn sem fékk 100% stuðning og manninn með sér í skólanum, varð eitt af hinum 15 þegar það kom í heilsdagsskólann. Í frístundaheimilinum eru 12 - 14 börn á starfsmann og þau börn sem þurfa stuðning fá hann, bæði þau sem eru með fötlun og þau sem þurfa félagslegan stuðning.

Þegar faglegi þátturinn er skoðaður þá upplifði ég að lítil fræðsla og símenntun var í boði fyrir starfsmenn heilsdagsskólans sem hægt var að nýta beint í starfið, enda var fræðslan hugsuð fyrir skólann í heild sinni. ÍTR hefur verið duglegt við að bjóða upp á námskeið sem eru sérsniðin að starfsemi frístundaheimilanna, bæði þegar kemur að þroska 6 – 9 ára barna og kynningu á frístundastarfi fyrir þennan aldur, hvort sem verið er að vinna með hópa eða einstaklinga. Einnig er lögð rík áhersla á samskipti á milli frístundaheimila í hverfunum sem og á milli hverfa. Verkefnisstjórar funda reglulega og fara yfir ýmis mál og einnig funda deildastjórar á milli hverfa, svo allt upplýsingaflæði er gott og fagmennska í fyrirrúmi.

Af reynslu minni vil ég því segja að mín upplifun er sú að mun meira faglegt starf er að finna innan frístundaheimilanna en var í heilsdagsskólanum. Helstu ástæðuna tel ég vera að innan ÍTR er að finna reynslubolta og fagfólk í frítímaþjónustu sem er einmitt það sem frístundaheimilin snúast um. Það var mjög fínt að vinna hjá skólanum og frábært fólk sem ég kynntist þar, en ef ég einblíni á starfsemi frístundaheimilanna, þá tel ég að best sé að hún haldist áfram undir rekstri ÍTR. Rekstrarlega séð, þá erum við áfram að samnýta starfsfólk, bæði frá skólanum sem og á milli deilda innan ÍTR eins og fram kemur í greininni að ofan. Það að verkefnisstjóra sé úthlutað fjármagni sem áætlað er í starfið tryggir að peningurinn fari á réttan stað. Þar er honum ráðstafað eins og við teljum henta starfinu best út frá þörfum og áhuga barnanna sem fá að vera með í ráðum.

Í lokin langar mig að segja að lítill fugl hvíslaði því í eyra mér að skólastjóri hér í borginni hefði sagt að ef frístundaheimilin færu aftur inn til skólanna, þá yrðu þau að fara þangað með manni og mús. Fyrir mér hljómar þetta sem risa stórt klapp á bakið fyrir vel unnið starf af hendi ÍTR en því má ekki gleyma að starfsemi frístundaheimilanna er orðin eins og hún er í dag vegna ÍTR, með áherslu á fagstarf með börnum í frítíma þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×