Skoðun

Að losna við verðtryggingu

Magnús Orri Schram skrifar
Verðtryggingu var komið á árið 1979 til að verðtryggja sparifé landsmanna. Þannig áttu 10.000 krónur lagðar í sparnað 1980 að vera ígildi 10.000 króna árið 2011, plús ávöxtun. Áður hafði sparnaður brunnið upp í verðbólgu og því tókst ekki að byggja upp öflugt lífeyriskerfi. Verðtryggingin átti þannig að tryggja að spariféið héldi verðgildi sínu. Sparnaðurinn er m.a. ávaxtaður í húsnæðiskerfinu og til að tryggja hann gegn rýrnun eru húsnæðislánin okkar verðtryggð. Þar verður ókostur verðtryggingar öllum ljós. Hann birtist okkur í 30% hækkun allra innlendra húsnæðislána við hrun krónunnar 2008 og nýlegri sex milljarða hækkun húsnæðislána vegna hækkunar á olíu. Þannig hækka lánin vegna þess að verja þarf sparnaðinn.

Þannig verður verðtryggingin herkostnaðurinn í litlu berskjölduðu hagkerfi með eigin mynt.

Ef við viljum breyta þessu kerfi verður að loka hagkerfinu eða breyta myntinni. Öðruvísi verður ekki komist hjá sveiflunum. Lokað hagkerfi þýðir upptaka á haftakerfi fortíðar, úrsögn úr EES og þar með t.d. afnám tollfríðinda fyrir fiskafurðir. Þá er hægt að breyta um mynt – og það yrði gert með einhliða upptöku eða samstarf um evru. Einhliða upptöku er slæmur kostur því þá þyrfti að nota forða ríkisins af dollurum og evrum til að kaupa krónur af Íslendingum og koma svo verðlausu krónuseðlunum fyrir kattarnef. Það væri mikil sóun á fjármunum, þegar hægt væri að framkvæma umskiptin mun ódýrar ef farið yrði í samstarf á vettvangi evrunnar.

Sumir þingmenn telja að með töfralausnum sé hægt að koma í veg fyrir verðbólgu og afnema verðtryggingu. Hagstjórnarumbætur eru nauðsynlegar og að þeim er verið að vinna en íslenskir stjórnmálamenn geta hins vegar ekki varið skuldir heimilanna gegn sveiflum á verði olíu nema með upptöku annarar myntar. Verðbólga og verðtrygging verða alltaf fylgifiskur krónunnar nema við viljum hverfa til haftastefnu fortíðar eða eiga á hættu að sparnaður hverfi. Upptaka annarar myntar er því eina raunhæfa leiðin til að losna undan verðtryggingu og afleiðingum hennar, eins og t.d. tengslum olíuverðs við skuldir íslenskra heimila.




Skoðun

Sjá meira


×