Skoðun

Nýsköpun alls staðar

Orri Hauksson skrifar
Djúp lægð er í vissum atvinnugreinum á Íslandi. Aðrar greinar eru í blóma, en ná einfaldlega ekki að vaxa eins hratt og þær vilja. Ástæðan er sú að ekki finnst nægt starfsfólk við hæfi á Íslandi. Þó eru um 14 þúsund manns án atvinnu, með tilheyrandi samfélagstjóni. Við þetta sára ójafnvægi má ekki búa. Markvisst átak þarf til langs tíma til að rétta af hallann, í samstarfi atvinnulífs, menntakerfis og stjórnvalda. Tækifæri er til að nýta betur fjármagn, mannauð og skólahúsnæði, öllum til heilla.

Um leið er brýn þörf á samdrætti í útgjöldum hins opinbera. Þegar hefur verið gengið alltof langt í skattheimtu og frekari skuldasöfnun er ekki valkostur. En þörfin fyrir ráðdeild er ekki bara kvöð, heldur líka tækifæri. Breytingar má nýta til að láta af gömlum ósiðum, endurskoða aðferðir og bæta meðhöndlun skattfjár.

Skerpa þarf vinnubrögð á flestum sviðum, s.s. í ríkisfjármálum, menntamálum, vinnumarkaðsmálum og peningamálum. Svokallað klasasamstarf fyrirtækja, stofnana og menntakerfis, er kjörin leið til að þróa nýjar lausnir og vinnubrögð hjá hinu opinbera. Sé rétt að verki staðið sparar það fé til langs tíma, án þess að koma niður á þjónustu. Beina þarf opinberu þróunarfé sem mest úr opinberum stofnanafarvegi í samkeppnisfyrirkomulag eins og Tækniþróunarsjóður rekur. Í slíku þróunarsamstarfi fyrirtækja og hins opinbera geta jafnframt orðið til hugverk og nýjar lausnir sem fyrirtækin geta nýtt til útflutnings.

Það var meðal annars í þessu ljósi sem Samtök iðnaðarins blésu til átaks seint á síðasta ári sem kallast Ár nýsköpunar. Markmiðið er kynna og efla nýsköpun sem leið til endurreisnar í íslensku atvinnulífi, með verðmætasköpun og aukinn útflutning að leiðarljósi. Iðnþing 2011 er helgað þessu átaki. Helsta viðfangsefnið er að vinna á markvissan hátt að bættum starfsskilyrðum og stuðningsumhverfi nýsköpunar í fyrirtækjum, og einskorðast ekki við tæknivæddustu fyrirtækin, heldur ekki síður þroskaðar atvinnugreinar sem þurfa að halda sér síungum. Leið okkar út úr kreppunni felst í því að skapa aukin verðmæti, framleiða betri vörur og þjónustu. Til þess þarf ekki síst nýsköpun í hugarfarinu, en láta af þeirri kreppu hugans, sem hér hefur ráðið of lengi.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×