Skoðun

Það er eitthvað rotið

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
"Landsvirkjun borgaði dómurum 40 milljónir fyrir dómsniðurstöðu.” Vonandi hrökkva einhverjir við þegar þeir sjá  svona vitleysu skrifaða. Það hrukku líka margir við þegar spurðist að Landsvirkjun hefði borgað sveitarstjórnum fyrir austan fyrir stefnumótun í aðalskipulagi og fulltrúum almennings í sveitarstjórn Flóahrepps fyrir að skipta um skoðun þegar sveitarstjórn hafði samþykkt að Urriðafossvirkjun yrði ekki inni á aðalskipulaginu. Gjafir Landsvirkjunar eru kallaðar mótvægisaðgerðir sem þýðir að þetta eru aðgerðir til að lágmarka óafturkræf umhverfisáhrif Urriðafossvirkjunar í Þjórsá og nágrenni. Ekkert af þeim minnkar umhverfisáhrif af Urriðafossvirkjun.



Gjafir Landsvirkjunar

Ágætt yfirlit er yfir “mótvægisaðgerðir” Landsvirkjunar í góðri grein eftir sveitarstjórnarkonu í Flóahreppi hér á vefnum undir yfirskriftinni: “Urriðafossvirkjun – upprifjun.” Þar kemur fram að Landsvirkjun lagði fram eingreiðslu 40 milljónir til sérverkefna tengdum vatnsöflunarmálum í sveitarféalginu. Landsvirkjun mun bera allan kostnað af gerð deiliskipulags af virkjunarsvæði Urriðafossvirkjunar ásamt tilheyrarndi greinargerðum vegna skipulagsvinnu og framkvæmdaleyfis. Landsvirkjun greiðir að fullu kostnað sem sveitarfélagið kann að verða fyrir við aðal- og deiliskipulagsvinnu vegna virkjunarinnar. Landsvirkjun mun kosta lögn nýrrar aðveitu vatnsveitu sveitarfélagsins, nægilega miðlun vatnsins með tilliti til dreifingar um allt sveitarfélagið og byggingu miðlunartanks ef með þarf. Landsvirkjun endurbyggir vegakafla frá þjóðvegi 1 um sveitarfélagið að Gaulverjabæ með bundnu slitlagi.  Og Landsvirkjun gerir  endurbætur á GSM símakerfi í sveitarfélaginu þannig að gott farsímasamband verði í sveitarfélaginu með uppsetningu nýs sendis neðarlega í sveitarfélaginu og styrkingu núverandi senda ef með þarf.



Niðurstaða dómstóla

Sveitarstjórnarmönnum í Flóahreppi fannst svo sjálfsagt að þiggja þessar gjafir frá Landsvirkjun í kaupum fyrir Urriðafossvirkjun að þeir hrukku við þegar umhverfisráðherra leyfði sér að benda á að ekki væri lagaheimild fyrir greiðslu vegna aðalskipulags í skipulags- og byggingarlögum. Þeir  kærðu málið umsvifalaust til dómstóla. Skyldi það líka hafa verið í boði Landsvirkjunar? Dómstólar komust að því að þar sem ekki stæði í lögunum að ekki mætti greiða fyrir aðalskipulag þá mætti það. Hvers vegna er þá sérstaklega tekið fram í lögunum að landeiganda eða framkvæmdaraðila sé heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað? Þessari gjaldtökuheimild var bætt inn í lögin árið 2000 en engu um gjaldtökuheimild fyrir aðalskipulag. Og hvernig er hægt að rugla þessu saman við heimild til gjaldtöku fyrir framkvæmdaleyfi sem eiga að vera í  samræmi við skipulag? Niðurstaða dómstóla segir á hvaða leið þjóðfélagið er. Og nú er aðalmálið að umhverfisráðherra segi af sér.



Viljum við svona Þjóðfélag?


Kjarni málsins snýst um hvernig þjóðfélagi við viljum búa í. Viljum við svona gjörninga og svona þjóðfélag. Viljum við að það sé sjálfsagt og viðtekið að fyrirtæki borgi háar fjárhæðir og beri gjafir á sveitarfélög í skiptum fyrir umdeildar framkvæmdir. Gjafir fyrirtækja í almannaeigu sem almenningur þarf að borga í auknum álögum þegar upp er staðið. Ef ekki, þá eigum við ekki og megum ekki þegja yfir svona gjörningi. Hér þarf opna umræðu sem flestra og miklu  ásættanlegri niðurstöðu en liggur á borðinu. Siðfræðingar eru sérstaklega hvattir til að blanda sér í umræðuna. Það þarf að mótmæla svona þjóðfélagsþróun.  Annars líður ekki á löngu þar til enginn hrekkur við og öllum finnst sjálfsagt ef þessi fyrirsögn birtist í fjölmiðlum: ,,Landsvirkjun borgaði dómurum 40 milljónir fyrir dómsniðurstöðu.”

 

 




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×