Handbolti

Norðmenn gerðu Íslendingum greiða og burstuðu Þjóðverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Noregur vann tíu marka stórsigur á Þýskalandi, 35-25, í fyrsta leik dagsins í íslenska milliriðlinum. Þessi úrslit þýða að Ísland getur ekki endaði neðar en í fjórða sæti í riðlunum og mun því spila um annaðhvort fimmta eða sjöunda sæti á mótinu. Þjóðverjar spila því um ellefta sætið á mótinu en þeir áttu enn möguleika á Ólympíusæti með sigri.

Liðin í 2. til 7. sæti komast inn í forkeppni Ólympíuleikanna og því léttu þessi úrslit talsvert af pressunni af íslenska liðinu fyrir leik kvöldsins á móti Frökkum. Ungverjar geta enn komist upp fyrir okkur nái þeir í stig á móti Spánverjum á eftir en fái Ísland jafnmörg stig og Ungverjar í dag þá mun íslenska liðið spila um fimmta sætið.

Norðmenn fóru á kostum í leiknum í dag og fóru afar illa með þýska liðið einkum í síðari hálfleiknum þegar það var algjör uppgjöf í þýska liðinu. Steinar Ege átti frábæran leik í norska markinu og flestir leikmenn liðsins voru í miklum ham.



Þjóðverjar áttu frábæran leik á móti Íslandi á laugardaginn en hafa síðan tapað fyrir bæði Ungverjum og Norðmönnum. Tapið í dag þýðir að Þjóðverjar spila um 11. sætið á mótinu en Norðmenn munu spila um 9. sætið.

Norðmenn voru með frumkvæðið strax frá byrjun leiksins og náðu síðan fjögurra marka forskoti fyrir hálfleik, 17-13, með góðum lokakafla í hálfleiknum.

Þjóðverjar náðu að minnka muninn í þrjú mörk í upphafi seinni hálfleiks en þeir komust ekki nær. Norðmenn stungu síðan af og léku sér af þeim þýsku á lokakafla leiksins.

Håvard Tvedten skoraði 8 mörk fyrir Norðmenn og þeir Bjarte Myrhol og Christoffer Rambo voru báðir með 7 mörk.  Steinar Ege var þó maður leiksins því hann varði 21 skot þar af 14 þeirra í fyrri hálfleiknum.  Michael Kraus skoraði 6 mörk fyrir Þjóðverja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×