Viðskipti innlent

Skilanefndin ætlar að byrja að greiða út í lok næsta árs

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Skilanefnd Glitnis hyggst byrja að greiða út til kröfuhafa seint á árinu 2011, en nefndin hefur núna 200 milljarða króna í handbæru fé til að greiða út. Skilanefndin hefur hitt forsvarsmenn stærstu kröfuhafa Glitnis, eins og Burlington Loan Management, og eru þeir hlynntir sölu Íslandsbanka þegar rétt verð fæst.

Sem kunnugt er var farin sú leið við endurfjármögnun bankanna á síðasta ári að kröfuhafar bæði Kaupþings og Glitnis tækju Arion banka og Íslandsbanka yfir. Sú flökkusaga virðist vera landlæg að ekkert liggi fyrir um hverjir eigi bankana. Það hefur hins vegar legið fyrir í tæpt hálft ár hverjir eiga stærstu kröfurnar í þrotabú Kaupþings og Glitnis, en kröfulýsingarskrár bankanna voru birtar í lok síðasta árs. Vandamálið er að takmarkaðar upplýsingar hafa legið fyrir um hverjir það séu sem standi þessum kröfuhöfum að baki. Í raun og veru og hefur lítið breyst í þeim efnum frá því kröfulýsingarskrár bankanna voru birtar.

Þegar kröfuskrá Glitnis var birt í desember síðastliðnum var greint frá því að stærsti kröfuhafi bankans væri írski vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management með kröfu upp á 142 milljarða króna. Þá virtist skilanefnd Glitnis hafa litlar upplýsingar um þetta félag og ekki lá fyrir í eigu hverra það var eða hvernig það hefði eignast svo stóra kröfu í þrotabúið.

Burlington Loan Management er í eigu þriggja góðgerðarsjóða. Badb Charitable Trust, Eurydice Charitable Trust og Medb Charitable Trust. Þessir sjóðir eiga það allir sameiginlegt að vera með forstjóra frá sömu lögmannsstofunni í Dublin, Matheson Ormsby Prentice (MOPS). Eins og fréttastofa hefur greint frá hyggst skilanefnd Glitnis, sem heldur utan um 95 prósenta hlut í Íslandsbanka í gegnum eignarhaldsfélagið ISB Holding, selja hlut sinn í bankanum innan fimm ára. Hefur svissneski bankinn UBS verið ráðinn sem ráðgjafi við söluna, sem sýnir að söluferlið er í raun hafið, þótt nokkur ár séu í að bankinn verði seldur. Árni Tómasson, formaður skilanefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofu að sjóðurinn væri hlynntur sölu Íslandsbanka þegar rétt verð fengist, innan þriggja til fimm ára, en afskipti sjóðsins af rekstri bankans væru engin.

Meðal annarra stórra kröfuhafa Glitnis eru stórir evrópskir bankar eins og RBS og Dekabank, en þeir voru lánveitendur bankans fyrir hrun. Þá eru þarna önnur þekkt nöfn eins og Goldman Sachs og Deutsche Bank.

Annar stór kröfuhafi og þar með hluthafi í Íslandsbanka er fjárfestingarsjóðurinn Thingvellir Fund, en það er, rétt eins og Burlington Loan Management, fjárfestingarsjóður sem keypt hefur upp skuldabréf Glitnis á eftirmarkaði. Að sögn Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, er sjóðnum stýrt af útlendingum, aðallega Bretum og Bandaríkjamönnum.

Þá dúkkar Exista upp í sjöunda sæti með kröfu upp á 53 milljarða en um er að ræða kröfu vegna gjaldmiðlaskiptasamnings og ágreiningur vegna hennar ekki verið til lykta leiddur.

Árni Tómasson segir að vel hafi gengið að innheimta eignir og að skilanefndin hafi nú 200 milljarða króna til umráða í handbæru fé. Svona til að setja þá upphæð í samhengi eru fjárlög íslenska ríkisins fyrir þetta ár 540 milljarðar króna.

Að sögn Árna er skilanefndin reiðubúin að greiða út kröfuhöfum núna. Vandinn snúi hins vegar að því hverjum eigi að greiða því mikill ágreiningur sé um kröfur í þrotabúið og ágreiningur um flestar forgangskröfur verði líklega leiddur til lykta fyrir dómstólum. Árni segir þó að þrotabúið ætli sér að hefja hlutagreiðslur til kröfuhafa seint á árinu 2011.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×