Innlent

Ummæli Þórs Saari fjarstæðukennd

SB skrifar
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

„Því er fljótsvarað. Það er ekki í bígerð," segir Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi Landsbankans. Þór Saari sagði á Alþingi í dag að hann hefði heimildir fyrir því að fjarmögnunarfyrirtækin hygðust senda út greiðsluseðla til þeirra sem hefðu gengistryggð lán þar sem tekið væri mið af 8% vöxtum Seðlabankans.

„Þeir ætla greinilega í stríð," sagði Þór Saari á Alþingi í dag.

Kristján segir ummæli Þórs fjarstæðukennd. „Í fyrsta lagi hafa fjármögnunarfyrirtækin tilkynnt að þau ætli ekki að senda út greiðsluseðla um mánaðarmótin. Í okkar tilfelli sendum við þá út jafnt og þétt en að við ætlum að breyta þeim með þessum hætti. Það er bara ekki rétt."

Haraldur Ólafsson forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá SP-Fjármögnun segir fjármögnunarfyrirtækin ekki á leiðinni í stríð. „Ég veit ekki hvaðan hann hefur þessar upplýsingar segir hann um ummæli Þór Saari. "Við höfum tilkynnt á heimasíðu okkar að greiðsluseðlar verði ekki sendir út fyrr en réttaróvissu lýkur í málinu og við það situr."

Þór Saari sat í gær fund með áhrifamönnum úr bankageiranum, þar á meðal Steinþóri Pálssyni bankastjóra Landsbankans. Samkvæmt heimildum Vísis yfirgaf Þór fundinn eftir hálftíma umræður en fundurinn stóð yfir í tæpa tvo tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×