Viðskipti innlent

Bankinn afskrifar rúman milljarð

Landsbankinn afskrifar rúman milljarð króna þegar Grund kaupir af bankanum 78 þjónustuíbúðir fyrir aldraða á svæðinu austan við Skeifuna síðar í vikunni. Eftir því sem næst verður komist hafa þessar íbúðir - sem metnar voru á tæpa þrjá milljarða fyrir rösku ári - aldrei verið auglýstar opinberlega.

Saga þessara blokka er orðin nokkuð skrautleg. Upphaflega var það sjálfseignarstofnunin Markarholt sem fékk úthlutaða lóð frá Reykjavíkurborg - á spottprís, þurfti einungis að greiða gatnagerðargjöld fyrir lóðina. Enda átti að reisa íbúðir fyrir aldraða, það vakti því lítinn fögnuð hjá borginni þegar Nýsir tók yfir framkvæmdina, það á ekki að framselja velvild til fjármálafyrirtækis - sagði formaður velferðarráðs Reykjavíkur af því tilefni árið 2006 - enda hefðu menn ekki átt að hagnast á byggingu þjónustuíbúða.

Í það stefndi þó því síðar kom í ljós að fermetraverð yrði allt að 500 þúsund krónur - sem var með því hæsta sem þá hafði þekkst. Nú er ljóst að lítill hagnaður - þvert á móti umtalsvert tap - verður á þessum íbúðum, Landsbankinn yfirtók eignirnar í september 2008, í lok þess árs voru skuldirnar rúmlega þrír komma einn milljarður króna - en verðmæti húsanna og lóða nánast sama tala.

Hjá Landsbankanum fengust þær upplýsingar að bankinn hefði aldrei auglýst þessar eignir opinberlega, vísað var á Íslenska aðalverktaka og fullyrt að þeir hefðu séð um söluna. Þar á bæ kannaðist enginn við það. Tvær aðrar fasteignasölur sem fréttastofa ræddi við, og voru sagðar hafa fengið eignirnar á sölu, höfðu ekki auglýst þær.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður skrifað undir kaupsamning á fimmtudag og söluverðið sé 2 milljarðar króna. Það þýðir að Landsbankinn þarf að afskrifa rúman milljarð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×