Viðskipti innlent

Gæti verið langt í ákvörðun um sölu Haga

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Vikur eða mánuðir gætu verið þar til stjórn Arion banka tekur afstöðu til tilboðs Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu í tæplega 96 prósenta hlut Arion í Högum, að sögn stjórnarmanns í bankanum. Tilboð Bónusfjölskyldunnar hafi sett málið í biðstöðu, en hefði það ekki komið til, væru Hagar nú til sölu.

Stjórn Arion banka mun funda í höfuðstöðvum bankans á þriðjudaginn kl. 5, samkvæmt heimildum fréttastofu. Á fundinum eru m.a mál Haga á dagskrá, en á borðinu liggur fyrir kauptilboð í 95,7 prósent hlut bankans í fyrirtækinu sem þó er háð fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Undanfarið hafa starfsmenn fyrirtækjaráðgjafar Arion banka og aðrir sérfræðingar innan bankans vegið og metið þætti tilboðsins með hliðsjón af stöðu Haga og áætluðu verðmæti. Stjórnarmenn í Arion banka sem fréttastofa ræddi við segja að ólíklegt sé að ákvörðun verði tekin í málinu á þriðjudag. Einn stjórnarmaður segir það „glórulaust" að taka afstöðu til tilboðsins eftir stutta kynningu. Hann segir að málið sé ekki komið jafn langt og ýjað hefur verið að í fjölmiðlum og því sé fréttaflutningur af málinu beinlínis villandi. Stjórnarmaðurinn segir að á margan hátt sé æskilegt að bíða með ákvörðun í málinu, en tilboðið hafi í raun sett málið á klaka. Reikningsárið hjá Högum endi í febrúar og jafnframt þurfi sölutölur úr jólaverslun fyrirtækja Haga að liggja fyrir. Stjórnin eigi að taka viðskiptalegar ákvarðanir með hagsmuni bankans að leiðarljósi, því sé óheppilegt að rjúka af stað með einhverjar ákvarðanir nema þær þjóni hagsmunum bankans.

Annar heimildarmaður segir að betra sé fyrir fulltrúa ríkisins í stjórninni að bíða þar sem núverandi stjórn sé millibilsástand. Hann bendir hins vegar á að auðveldara sé að taka ákvörðun um höfnun tilboðsins og hefja söluferli, enda sé síst til vinsælda fallið að fulltrúar ríkisins ákveði að selja fyrrverandi eigendum fyrirtækið aftur.

Núverandi stjórn Arion banka er þannig að fjórir stjórnarmenn eru fyrir hönd ríkisins og fara þeir með 5 atkvæði á móti 5 atkvæðum tveggja fulltrúa skilanefndar Kaupþings. Formaður stjórnar fer ekki með oddaatkvæði, samkvæmt samþykktum Arion banka. Langt er í að ný stjórn bankans verði skipuð, enda þarf Fjármálaeftirlitið að staðfesta stjórnarmenn og reynslan sýnir að eftirlitið tekur sér góðan tíma ákvarðanir þar að lútandi.

Fyrst þarf að skipa stjórn Kaupskila ehf. sem heldur utan um hlut skilanefndar Kaupþings í Arion banka og FME þarf að samþykkja þá stjórn. Þá þarf FME einnig að samþykkja nýja stjórn í bankanum í samræmi við þau skilyrði sem hafa verið sett, þ.e þeir mega ekki vera í umboði kröfuhafa og jafnframt má aðeins einn stjórnarmaður vera úr skilanefndinni.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×