Viðskipti innlent

Segir verðbólgulækkun því miður vera gálgafrest

Áhugaverðasta spurningin nú er sú hvort verðbólgan hafi misst móðinn eða hvort henni hafi bara seinkað aðeins. Því miður eru vísbendingar um að hin lága verðbólga í janúar sé að einhverju leyti gálgafrestur.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka þar sem fjallað er um nýjustu verðbólgumælingu Hagstofunnar.

Fram kemur í Markaðspunktunum að útsöluáhrif sem lækkuðu verðlag um u.þ.b. 1% eru auðvitað bara tímabundin og 0,2% lækkun á flugfargjöldum er það sennilega einnig. Ennfremur virðist yfirvofandi 0,5% hækkun verðlags vegna vsk-hækkana og 0,15% hækkun vegna tryggingagjalds ekki ætla að skila sér strax út í verðlag.

„Þá er hækkunarþörf enn til staðar hjá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum þó svo hún hafi að einhverju leyti komið fram í janúarmælingunni. Þeir sem vilja horfa á neikvæðu hliðarnar geta því talað sig upp í 2% yfirvofandi hækkun þegar allt ofangreint er talið. Verðbólguspá okkar gerir ráð fyrir þessum hækkunum, enda teljum við að þær skili sér á endanum út í verðlagið," segir í Markaðspunktunum en fyrrgreind spá greiningarinnar gerir ráð fyrir tæplega 10% verðbólgu á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Síðan segir í Markaðspunktunum að óvæntar tölur um verðhjöðnun hafa aukið bjartsýni markaðsaðila að verðbólgan nái „raunverulega" að ganga hraðar niður en menn höfðu almennt trú á, ef marka má viðbrögð á skuldabréfamarkaði. Talsverð eftirspurn hefur þannig verið eftir ríkisbréfum það sem af er degi á kostnað íbúðabréfa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×