Viðskipti innlent

Fons fékk 7,2 milljarða rétt fyrir hrun

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Glitnir gerði lánasamninga við Fons upp á samtals 7,2 milljarða króna rétt fyrir hrun bankans. Þetta kemur fram í gögnum sem skilanefnd Glitnis hefur afhent Vilhjálmi Bjarnasyni. Vilhjálmur segir þetta sýna að stjórnendur bankans hafi verið að ausa peningum út í tóma vitleysu á sama tíma og þeir þóttust vera að reyna að bjarga honum.

Hæstiréttur heimilaði fyrir helgi að skilanefnd Glitnis afhenti Vilhjálmi Bjarnasyni, sem var hluthafi í Glitni banka, gögn um lánveitingar til eignarhaldsfélagsins Fons, sem var í eigu Pálma Haraldssonar, en kröfur Glitnis í þrotabú Fons nema rúmlega 23 milljörðum króna. Skilanefndin hafði hafnað því að afhenda gögnin með skírskotun til bankaleyndar.

Mjög skrautlegt

„Þetta er mjög skrautlegt. Þarna eru lánasamningar, samningar um framvirk hlutabréfaviðskipti og gjaldmiðlaskiptasamningar. Það eru haldlaus veð í þessu upp á 24 milljarða. Hlutabréfaviðskiptin eiga sér stað á tímabilinu 5. september til 8. október eftir að bankinn var kominn undir skilanefnd," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur er þarna að vísa til samninga sem gerðir eru á tímabilinu 5. september til 8. október 2008, síðustu vikurnar fyrir hrun bankans en síðasti samningurinn er samningur um framvirk hlutabréfaviðskipti daginn eftir að Glitnir var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og skipuð var skilanefnd yfir honum. Vilhjálmur segir merkilegt að á sama tíma og stjórnendur bankans hafi verið að vinna að því að bjarga bankanum haustið 2008 hafi slík lán verið veitt.

„Þetta er náttúrulega á sama tíma og stjórnendur bankans þykjast vera að róa lífróður að bjarga bankanum. Á hina hendina eru þeir að ausa út peningum í tóma vitleysu," segir Vilhjálmur.

Meðal gagnanna sem Vilhjálmur fékk afhent eru eldri gögn eins og lánasamningar frá febrúar 2008 upp á 2,9 milljarða króna gegn veðum í Northern Travel Holding sem nú er gjaldþrota og lánasamning upp á 10,2 milljarða króna gegn hlutabréfum í FL Group frá desember 2007. Þá má nefna lánasamning frá desember 2007 upp á 2,5 milljarða króna.

Fons er gjaldþrota en kröfur í þrotabúið nema 40 milljörðum króna. Þar af er Glitnir banki með kröfur upp á 23,7 milljarða króna. Útlán Glitnis banka til viðskiptavina jukust um 1.000 milljarða króna á einu ári eftir að FL Group og tengdir aðilar urðu ráðandi í bankanum og réðu Lárus Welding sem bankastjóra. Eins og þessi gögn sýna jukust lánveitingar til aðila sem voru tengdir eigendum bankans mikið, en Pálmi Haraldsson, eigandi Fons, var viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem var stjórnarformaður FL Group, sem var stærsti hluthafi Glitnis.

 
























Fleiri fréttir

Sjá meira


×