Innlent

Ráðherra kynnir áform um greiðsluþáttöku þunglyndislyfja

Heilbrigðisráðherra kynnir í dag á blaðamannafundi áform um greiðsluþátttöku þunglyndislyfja. Auk ráðherra og sérfræðinga á sviði lyfjamála verður fyrir svörum á fundinum Páll Matthíasson, yfirmaður geðsviðs Landspítala.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að stefnt sé að því að kostnaður ríkisins vegna þunglyndislyfja lækki um 200-300 milljónir á ári með nýrri reglugerð um breytta greiðsluþátttöku vegna lyfjanna. Reglugerðin tekur gildi á morgun en markmiðið með henni er að draga úr notkun dýrari þunglyndislyfja.

„Áður hefur greiðsluþátttöku ríkisins í öðrum lyfjaflokkum verið breytt. Sú breyting hefur gengið vel og hefur t.d. leitt til allt að 70-80% lækkunar einstakra lyfja," segir ennfremur. „Góður skilningur og gott samstarf hefur verið við lækna um þær breytingar sem ráðist hefur verið í. Tryggt er að enginn sjúklingur sem nýtur lyfjameðferðar vegna þunglyndis verður án lyfja í kjölfar nýju reglugerðarinnar, enda þótt Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda hafi með röngu haldið því gagnstæða fram," segir ennfremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×