Innlent

Af landsfundi: Ríkisstjórnin eins og Rómverjar

Hafsteinn Hauksson skrifar
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins flutti skýrslu sína á landsfundi flokksins rétt í þessu. Hann segir Alþingiskosningarnar í apríl 2009 hafa verið þær erfiðustu í sögu flokksins og mikið verk væri fyrir höndum að endurvinna traust kjósenda. Jónmundur segir Sjálfstæðisflokknum einum hafa verið kennt um efnahagshrunið og styrkjamál hafi gert hlut flokksins enn verri, þrátt fyrir að flokkurinn hafi hafið endurgreiðslu styrkjanna en aðrir flokkar ekki. Jónmundur segir Sjálfstæðisflokkinn vissulega bera ábyrgð á því ástandi sem skapaðist í aðdraganda hrunsins, en flokkurinn bæri hvorki einn ábyrgð né alla ábyrgð. Hann vísaði því á bug að Sjálfstæðisflokkurinn og stefna hans hefðu orsakað kreppuna, heldur hefði stærð bankanna verið þar að verki. Hann segir aukið fylgi flokksins sýna að kjósendur átti sig á því að gerendur í hruninu væru aðrir en flokkurinn og að flokkurinn hafi dregið lærdóm af því sem gerðist. Þá gagnrýndi Jónmundur ríkisstjórnina og sagði hana hafa lofað öllu fögru en reyndin væri önnur; hún hefði þvert á móti margfaldað vandann. Jónmundur líkti ríkisstjórninni að kosningum loknum við Rómverja sem unnið hefðu sigur á Karþagómönnum og síðan lagt Karþagó í eyði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×