Innlent

„Lánþegar hafa mátt þola nóg“

Mynd/Anton Brink
„Samræður aðila eru fyrsta skref í átt að lausn. Einhliða ákvarðanir stjórnvalda og þeirra sem Hæstiréttur dæmdi brotlega er hvorki lögleg leið, né réttlát eða leið til sátta," segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum lánþega og talsmanni neytenda.

Þar segir að stjórnvöld hafi frá hruni nær eingöngu hugsað um hagsmuni fjármálafyrirtækja á kostnað viðskiptavina þeirra. „Ef það er mat stjórnvalda, að bankakerfið geti ekki staðið af sér dóma Hæstaréttar, sem er ekki trúverðug staðhæfing enda stangast hún á við fyrri yfirlýsingar ráðherra, þá er lagt til víðtækt samráð eða samninga um hvernig bregðast megi við svo allir geti gengið sáttir frá borði."

Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega og talsmaður neytenda telja að lánþegar hafi mátt þola nóg vegna framgöngu eigenda og stjórnenda bankanna í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Ekki eig að bæta á herðar þeirra þeirri kvöð að endurfjármagna fjármálastofnanir landsins að nýju.

„Lýst er furðu á þeim ummælum seðlabankastjóra, að nauðsynlegt sé að breyta vaxtaákvæðum gengistryggðra lánasamninga svo eigendur bankanna þurfi ekki að leggja þeim til aukið fé. Það á ekki að vera hlutverk lánþega að leggja einkafyrirtækjum til aukið rekstrarfé þegar hæfni stjórnenda þrýtur og rekstur stefnir niður á við. Slíkt er hlutverk fjárfesta," segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×