Viðskipti erlent

Hertar reglur um bankana

Obama steig út í Rósagarðinn við Hvíta húsið í Washington til að skýra fjölmiðlum frá nýju reglunum.fréttablaðið/AP
Obama steig út í Rósagarðinn við Hvíta húsið í Washington til að skýra fjölmiðlum frá nýju reglunum.fréttablaðið/AP

Öldungadeild Bandaríkjanna samþykkti á fimmtudag nýjar og strangar reglur um fjármálastarfsemi, sem eiga að koma í veg fyrir nýtt hrun.

Afgreiðsla frumvarpsins þykir mikill sigur fyrir Barack Obama forseta, stuttu eftir annan mikilvægan sigur þegar þingið samþykkti nýja heilbrigðislöggjöf sem tryggir flestum Bandaríkjamönnum heilbrigðisþjónustu.

Með frumvarpinu, sem samþykkt var með 59 atkvæðum gegn 39, verða gerðar strangari kröfur til fjármálastofnana sem veita húsnæðislán, stunda almenn verðbréfaviðskipti eða flókin afleiðuviðskipti sem grófu undan fjármálakerfinu svo það hrundi með víðtækum afleiðingum fyrir tveimur árum.

„Markmið okkar er ekki að refsa bönkunum heldur að vernda efnahagslífið og almenning fyrir ólgu af því tagi sem við höfum séð undanfarin ár," sagði Obama þegar ljóst var að frumvarpið yrði samþykkt í deildinni.

Hann sagði fjármálafyrirtæki hafa unnið að því hörðum höndum að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum, og notað til þess „heilu hjarðirnar af hagsmunavörðum og varið milljónum dala í auglýsingar".

Fulltrúadeild þingsins samþykkti fyrir stuttu sína útgáfu frumvarpsins, sem er að nokkru frábrugðin frumvarpi öldungadeildarinnar. Nú hefst því vinna við að samræma frumvörpin, en búist er við því að lögin verði tilbúin til undirritunar forseta fyrir þjóðhátíðardaginn 4. júlí.

gudsteinn@frettabladid.is







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×