Innlent

Skólar búa námsfólk misvel undir háskóla

Viðhorf nemenda til þess hvernig framhaldsskólarnir skila þeim í háskóla er mismunandi eftir skólum. Mest er ánægjan með kennsluna í MA.fréttablaðið/valli
Viðhorf nemenda til þess hvernig framhaldsskólarnir skila þeim í háskóla er mismunandi eftir skólum. Mest er ánægjan með kennsluna í MA.fréttablaðið/valli

Nemendur úr framhaldsskólum telja sig misvel búna undir háskólanám eftir því í hvaða skóla þeir stunduðu nám. Nokkrir skólar skera sig úr og nemendur þeirra virðast betur undirbúnir.

Þetta kemur fram í könnun sem Háskóli Íslands vann í samvinnu við Stúdentaráð. Um nokkra hríð hafa þær raddir heyrst úr háskólanum að nemendur komi afar misvel undirbúnir upp úr framhaldsskólum. Skýrslan rennir stoðum undir þá fullyrðingu.

Mjög mismunandi er eftir skólum hve vel nemendur telja sig undirbúna. Líkt og sést hér fyrir ofan eru 98 prósent nemenda Menntaskólans á Akureyri mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að námið í framhaldsskóla hafi verið góður undirbúningur fyrir Háskóla Íslands. Einungis 38,1 prósent nemenda Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum getur tekið undir þá fullyrðingu á sama hátt.

Þá virðast nemendur missáttir við enskukennslu í skólum sínum. Um og yfir 80 prósent nemenda MA, MR og Menntaskólans Hraðbrautar eiga gott með að tileinka sér námsefni á ensku á fyrsta ári í HÍ og rúmt 71 prósent nemenda Versló. Meðaltalið er 64,2 prósent. Helmingur nemenda Keilis á hins vegar erfitt með enskuna.

Hið sama á við þegar kemur að stærðfræði, en 82,9 prósent MR-inga eru mjög eða frekar sammála því að undirbúningur í stærðfræði hafi verið fullnægjandi. Rúmlega 72 prósent MA-inga eru sama sinnis og 76,4 prósent nemenda úr Menntaskólanum Hraðbraut.

Könnunin var netkönnun og alls tók 1.391 nemandi þátt í henni. Konur voru mun fleiri svarendur en karlar, 1.019, eða 73,3 prósent, á móti 372, eða 26,7 prósentum.

Athygli er vakin á því að mismikil svörun var eftir skólum. Úr þeim minnstu svöruðu 9 til 17 nemendur, en vel á annað hundrað nemendur úr stærstu skólunum svöruðu spurningunum.

kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×