Erlent

Öldungar hvetja til málfrelsis í Kína

Kínverskur lögreglumaður reynir að hafa hemil á ljósmyndurum fyrir utan heimili Liu Xia, eiginkonu friðarverðlaunahafans Liu Xiaobo, í Peking. nordicphotos/AFP
Kínverskur lögreglumaður reynir að hafa hemil á ljósmyndurum fyrir utan heimili Liu Xia, eiginkonu friðarverðlaunahafans Liu Xiaobo, í Peking. nordicphotos/AFP
Hópur aldraðra félaga í Kommúnistaflokki Kína krefst þess að hömlum verði létt af tjáningarfrelsi í landinu. Í bréfi sem þeir hafa ritað til þjóðþingsins segja öldungarnir að ritskoðun sú sem nú tíðkist í Kína sé bæði skömm og hneisa.

Undir bréfið skrifa 23 félagar í Kommúnistaflokknum, sem allir eru komnir til ára sinna. Margir þeirra hafa gegnt áhrifastöðum innan flokksins og einn þeirra, Li Rui, var um skeið ritari Mao Zedong, leiðtoga kínversku byltingarinnar. Annar bréfritara var í eina tíð ritstjóri Dagblaðs alþýðunnar, sem er opinbert málgagn Kommúnistaflokksins, og aðrir hafa verið hátt settir innan ríkisfjölmiðla og áróðursyfirvalda landsins, þar sem þeir gegndu því hlutverki að hafa stjórn á opinberri umræðu.

Bréfritararnir hafa áður birt opinberlega bréf þar sem þeir hvetja til gagnsæis í kínverskri stjórnsýslu og stjórnmálum. Öldungarnir benda á að í stjórnarskrá landsins sé ákvæði um tjáningarfrelsi en það ákvæði sé ekki virt af núverandi stjórnvöldum. Norska Nóbelsnefndin benti á þetta sama í lok síðustu viku, þegar hún skýrði frá því að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo hlyti friðarverðlaunin í ár. Hann afplánar ellefu ára fangelsi fyrir það sem kínversk stjórnvöld kalla undirróður gegn ríkisvaldinu.

Öldungarnir vilja meðal annars afnema það kerfi að allir fjölmiðlar landsins séu tengdir stjórnvöldum. Þeir vilja að ríkið styðji stofnun nýrra fjölmiðla í einstaklingseigu og leyfi óhefta dreifingu fjölmiðla frá Hong Kong og Makaó.

Þá vilja þeir breyta hlutverki áróðursyfirvalda, þannig að í stað þess að þau einbeiti sér að því að koma í veg fyrir upplýsingaleka snúi þau sér að því að tryggja að upplýsingar sem berist frá stjórnvöldum séu áreiðanlegar. Þeir vilja afnema lögreglueftirlit með netmiðlum.

Bréfið er birt stuttu eftir að norska Nóbelsnefndin tilkynnti um friðarverðlaunin. Kínversk stjórnvöld brugðust ókvæða við ákvörðun Nóbelsnefndarinnar og hafa hótað því að samskiptin við Noreg muni versna.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×