Viðskipti innlent

Viðræður um að koma Icesave í skjól hófust 2. júlí 2008

Sigríður Mogensen skrifar
Vinna við dótturfélagavæðingu Landsbankans í Bretlandi hófst eftir fund með breska fjármálaeftirlitinu 2. júlí 2008. Þá var ítarleg umsókn um dótturfélagavæðingu Icesave innlána í Hollandi tilbúin nokkrum dögum áður en bankinn féll.

Icesave reikningarnir í Bretlandi og Hollandi tilheyra íslenska innistæðutryggingakerfinu því þeir voru í útibúum Landsbankans þar en ekki í sérstökum dótturfélögum.

Vorið 2008 hófst neikvæð umræða um veikleika sameiginlegra innlánstryggingakerfa. Í framhaldi af því hófust viðræður á milli breska fjármálaeftirlitsins, FSA, og Landsbankans um lausafjárstýringu í útibúi Landsbankans í London.

Vinnan hófst 2. júlí 2008

Heimildir herma að breska fjármálaeftirlitið hafi síðan óskað eftir því á fundi með forystumönnum Landsbankans, þann 2. júlí 2008, að bankinn hæfi vinnu sem miðaði að því að koma starfsemi sem tengdist Icesave í Bretlandi í sérstakt dótturfélag - og þannig í breska lögsögu. Landsbankinn hafði í framhaldi samband við Fjármálaeftirlitið og greindi frá ósk FSA. Mun Landsbankinn hafa óskað eftir sveigjanleika af hálfu FSA til að hægt væri að framkvæma yfirfærsluna í nokkrum skrefum en ekki var fallist á það. Vinnan varð tímafrek og ekki komin nógu langt þegar erfiðleikar bankanna tóku að hrannast upp haustið 2008.



Færðu 200 milljónir punda frá Reykjavík til London


Eftir þjóðnýtingu Glitnis og neikvæðar fréttir um stöðu íslensku bankanna hóf FSA að beina sjónum sínum að Icesave reikningum Landsbankans. Krafðist FSA þess síðan þann 2. október 2008 að Landsbankinn færði 200 milljónir punda frá Íslandi til Bretlands, til að mæta fyrirséðu útflæði af Icesave reikningunum um helgina. Mun Landsbankinn hafa gert það. FSA krafðist þess síðan seinnipartinn á föstudeginum 3. október að bankinn færði að auki 400 milljónir punda til Bretlands. Heimildir herma að Landsbankinn hafi sent Seðlabankanum minnisblað um þessa breytingu á stöðu bankans þann sama föstudag. Sunnudaginn 5. október lækkaði FSA síðan kröfur sínar í 200 milljónir punda.

Flýtileið rædd

Eins og fram hefur komið ræddu stjórnendur bankans síðan við FSA um möguleikann á flýtileið fyrir Icesave reikningana í breska lögsögu sunnudagskvöldið 5. október, daginn fyrir setningu neyðarlaganna. Tilboð þess efnis var munnlegt. Heimildir herma að þeir Sigurjón Árnason og Björgólfur Thor Björgólfsson hafi í kjölfarið sagt Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, frá möguleikanum á flýtimeðferð. Hefur Tryggvi Þór greint frá því opinberlega sjálfur.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun hins vegar ekki hafa haft vitneskju um samtal Landsbankamanna við FSA. Landsbankinn óskaði þá eftir 200 milljóna punda láni frá Seðlabankanum, en lánsbeiðninni var hafnað. Heimildir herma að lánsbeiðninni hafi ekki fylgt skýr skilaboð um að möguleiki væri á flýtimeðferð á Icesave inn í breska lögsögu.

Dótturfélagavæðing Icesave í Bretlandi hófst þannig þremur mánuðum fyrir bankahrun, en allt kom fyrir ekki og lenti Icesave á íslenska innistæðutryggingakerfinu.

Ítarleg umsókn um yfirfærslu Icesave reikninganna í Amsterdam í Hollandi úr útibúi í dótturfélag var einnig tilbúin til framlagningar í byrjun október 2008, nokkrum dögum fyrir fall Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×