Viðskipti innlent

Greining: Meðalið gjaldeyrishöft farin að súrna

„Tilgangurinn helgar vissulega meðalið, en nú er meðalið farið að súrna og það styttist í síðasta neysludag," segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem umfjöllunarefnið er gjaldeyrishöftin.

Í Morgunkorninu segir að samkvæmt efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda skulu höftin vera úr sögunni þegar efnahagsáætluninni lýkur í ágúst á næsta ári. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í vikunni að næsta skref í afnámi hafta myndi í fyrsta lagi eiga sér stað þegar Icesave og/eða þriðju endurskoðun AGS myndi ljúka en hún er á dagskrá um miðjan júlí.

Már sagði jafnframt að þegar endurskoðunin og/eða Icesave væri frá væri jafnvel hægt að ganga nokkuð hratt fram í afnámi haftanna. Hér skal hinsvegar hafa í huga að fyrstu tvær endurskoðanir efnahagsáætlunarinnar drógust töluvert og því væru það nokkur tíðindi ef að þriðja endurskoðun yrði á réttum tíma.

Þá ríkir enn nokkur óvissa um erlenda fjármögnun vegna þess að Norðurlöndin munu ekki veita frekara aðgengi að lánalínum fyrr en Icesave deilan er leyst. Í því ljósi er varla hægt að búast við að nokkur aflétting hafta hefjist fyrr en Icesavedeilunni ljúki.

Icesave samningaviðræður munu í fyrsta lagi komast á skrið á ný eftir að kosningum lýkur í Hollandi í byrjun júní. Að gefinni reynslu í samningaviðræðum um Icesave er jafnvel ástæða til að ætla að plan B ætti enn um sinn að vera ofarlega á blaði, en ekki myndi koma á óvart að viðræður gæti tekið tímann sinn.

Plan B, sem hér um ræðir, kom töluvert við sögu á vaxtaákvörðunarfundinum um miðjan mars. Til upprifjunar var plan B einhvers konar ný efnahagsáætlun sem að mati Más Guðmundssonar seðlabankastjóra kæmi til greina að móta ef samkomulag um Icesave myndi dragast mjög á langinn og hindra enn aðgengi að erlendu lánsfé. Þá kæmi til greina að lækka vexti talsvert án þess að nokkur aflétting gjaldeyrishafta myndi eiga sér stað

Enn gæti því verið nokkuð djúpt á að afnám haftanna geti hafist. Ljóst er að afar erfitt yrði að halda áfram með höftin eftir að efnahagsáætluninni lýkur þar sem þau eru í skjön við marga alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Ólíklegt er að alþjóðastofnanir sætti sig við langvarandi gjaldeyrishöft hér á landi þó að þær sjái í gegnum fingur sér við okkur á meðan við erum að jafna okkur á kreppunni og erum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×