Viðskipti innlent

Fjárlagahallinn hærri en Icesave

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjárlagahalli ríkissjóðs árin 2009-2012 er áætlaður 350 milljarðar króna, sem er 50 milljörðum króna hærra en áætlað er að íslenska ríkið þurfi að taka á sig vegna Icesave. Opinber útgjöld á Íslandi eru nú þau hæstu meðal OECD-ríkja.

Fram kom í máli Frosta Ólafssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs, á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins í morgun að áætlaður fjárlagahalli ríkissjóðs árin 2009-2012 verði rúmlega 350 milljarðar króna, sem sé um 50 milljörðum króna hærra en vænta má að íslenska ríkið þurfi að taka á sig vegna Icesave-reikninganna, miðað við þær forsendur sem hafa verið gefnar um endurheimtur í þrotabú Landsbankans.

Frosti benti hins vegar á að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins myndi skapa tímabundið svigrúm því ríkið myndi njóta aðgengis að lánsfjármagni til að endurfjármagna útistandandi lán. Frosti sagði afar mikilvægt að brúa rekstrarhallann í ríkisfjármálunum.

„Það er númer eitt, tvö og þrjú í allri endurreisn hagkerfisins að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er það sem skiptir öllu máli og þetta samtvinnast við stöðu peningamála. Þetta samtvinnast við endurreisn fjármálakerfisins og aðra þætti sem eru hinir liðirnir í endurreisninni," sagði Frosti. Hann sagði að ríkissjóður myndi ekki ná að greiða niður skuldir sínar nema með að brúa hallann í ríkisfjármálunum.

Útgjöld ríkisins þau hæstu meðal aðildarríkja OECD

Frosti benti á að ríkisútgjöld hefðu aukist mikið og ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu væru nú þau hæstu meðal aðildarríkja OECD.

„Við sjáum að þróunin hefur verið ákaflega óhagfelld. Útgjöld hafa vaxið hraðar en hjá öðrum OECD ríkjum. Við vorum undir meðaltali skulda en erum nú komin vel yfir meðaltal," sagði Frosti.

Þá benti Frosti á að opinberum starfsmönnum hefði fjölgað hratt undanfarið. „Vöxtur starfsmanna í opinberri stjórnsýslu hefur verið fimm sinnum hraðari en vöxtur almenns vinnuafls," sagði hann.

 

Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, kynnti áætlanir í ríkisfjármálum og sagði að huga þyrfti að samræmingu í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Björn Rúnar sagði að staðan í ríkisfjármálum gæti verið vel viðunandi innan skamms. Frosti Ólafsson sagði hins vegar að víða væri pottur brotinn í ríkisfjármálum og illa hefði gengið að halda áætlun. Hann sagði að þó að áætlanir hins opinbera litu vel út gæfi reynslan ekki ástæðu til að ætla að þær myndu ganga eftir. „Auðvitað vonar maður að áætlanirnar gangi eftir, en reynslan gefur ekki ástæða til að trúa að svo verði þar sem að útgjöld hafa jafnan farið verulega fram úr fjárlögum," sagði Frosti.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×