Innlent

Pasta hefur hækkað um rúm 150 prósent

Hagsmunaaðilar segja algengustu skýringuna á verðhækkun innfluttrar vöru vera hækkun heimsmarkaðsverðs.
Hagsmunaaðilar segja algengustu skýringuna á verðhækkun innfluttrar vöru vera hækkun heimsmarkaðsverðs.
Pasta hefur hækkað óvenju mikið í verði á síðustu árum hér á landi. Sé verðlagning borin saman við vísitölu neysluverðs sést glögglega að verðið tók stökk um mitt ár 2008 og fer svo stigvaxandi, hátt fyrir ofan vísitölu neysluverðs. Til samanburðar má skoða verðlag á kaffi, sem einnig er aðflutt vara, og sést að verðið heldur sig mestmegnis fyrir neðan vísitöluna.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að með verð á vörum sem þessum séu breytingar á heimsmarkaðsverði algengasta skýringin.

„Heimsmarkaðsverð á olíu er mikið í umræðunni á Íslandi og fólk virðist almennt gera sér grein fyrir því að markaðurinn er háður því hér á landi,“ segir Andrés. „En það sem vill gleymast er að það gildir nákvæmlega það sama um hráefni til matvinnslu eins og kaffi, hveiti, hrísgrjón og annað slíkt.“ Andrés segir að uppskerubrestir á hráefnum til matvæla geti haft gífurleg áhrif á heimsmarkaðsverð. „Þegar kólnar í Brasilíu, þá rýkur verð á kaffi upp.“

Andrés segir mikilvægt að koma Íslendingum í skilning um að ekki sé sjálfgefið að gengislækkanir hafi verðlækkanir í för með sér. Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands sem er umboðsaðili fyrir Barilla pasta, tekur í sama streng og Andrés og segir ástæðu fyrir hækkunum vera almenna hækkun á heimsmarkaði.

„Gengið spilar líka inn í. Þegar það bætist við hækkun á heimsmarkaðsverði verður útkoman þessi.“ Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir Íslendinga gera sér fulla grein fyrir því að verð úti í heimi hafi áhrif hér á landi á innfluttum vörum, en eftir styrkingu krónunnar þá kalli Neytendasamtökin eftir enn frekari verðlækkunum.

„Ef allt væri eðlilegt ætti verð á pasta að vera á niðurleið eins og á öðrum innfluttum vörum,“ segir hann. „Innflytjendur vöru verja hækkanir með veikingu krónunnar og þá ætlumst við til að þeir séu sjálfum sér samkvæmir og lækki verð þegar krónan styrkist. Við eigum talsvert mikið inni af verðlækkunum ennþá þó að þetta hafi að hluta til gengið til baka.“ sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×