Innlent

Skattaflótti til Mónakó stöðvaður

Samningur hefur nú verið undirritaður hjá norðurlöndunum
Samningur hefur nú verið undirritaður hjá norðurlöndunum

Norðurlöndin, auk sjálfstjórnarsvæðanna Grænlands og Færeyja, undirrituðu samning í dag um skipti á upplýsingum við Mónakó. Samningurinn er árangur umfangsmikils starfs sem unnið er innan Norrænu ráðherranefndarinnar og felst í því að stöðva skattaundanskot. Hann mun veita norrænum skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um alla sem reyna að komast hjá því að greiða tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt.

Þá felur hann einnig í sér gagnkvæma upplýsingagjöf um eignir sem ekki hafa verið gefnar upp í heimalandinu. Í tilkynningu frá Norrænu ráðherranefndinni segir að allir samningarnir séu tvíhliða til að uppfylla skilyrði stjórnarskrá landanna og verða þingin að staðfesta þá áður en þeir ganga í gildi.

„Skattskyldum á ekki að gefast nokkur möguleiki á því að grafa undan alþjóðlegri samkeppnishæfni með því að fela fjármagn og tekjur. Samningurinn við Mónakó er stór áfangi í árangursríkri vinnu sem felst í því að stöðva skattaundanskot. Norðurlöndin sýna með þessu fram á að þau taka fulla ábyrgð í alþjóðlegum leikreglum," segir Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Strax á árinu 2006 tóku norrænu ríkin ákvörðun um að hefja samningaviðræður við stjórnvöld í nefndum skattaparadísum til að koma í veg fyrir undanskot í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Samstarfið sem nú heldur áfram, styrkir samningsstöðu Norðurlanda og heldur kostnaði við samningaviðræðurnar í lágmarki, segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×