Erlent

Tvö lík til viðbótar fundust

Mynd/AP
Alls létust sjö þegar leðja lak úr súrálsverksmiðju í Ungverjalandi í byrjun vikunnar. Tvö lík fundust í dag. Leðjan sem lak úr súrálsverksmiðjunni í Ungverjalandi er nú komin út í Dóná. Menn greinir á um hversu miklum skaða hún geti valdið.

Dóná er næst lengsta fljót Evrópu og menn hafa miklar áhyggjur af því hvað gerist þegar leðjan fer að berast niður með henni. Þegar leðjulónið brast streymdi út á nokkrum klukkustundum hérumbil jafnmikið magn af leðju og lak út allan tímann sem olíuborholan var opin á Mexíkóflóa.

Grænfriðungar telja miklu hættu á varanlegum skaða

Mengunin á Mexíkóflóa reyndist miklu minni en óttast var í upphafi. Ungverskir embættismenn segja að sömu sögu sé að segja í Dóná. Fljótið mikla gleypi leðjuna án mikils skaða.

Grænfriðungar segja aftur á móti að mikil hætta sé á varanlegum skaða á umhverfinu. Mikið magn eiturefna hafi fundist í sýnum sem samtökin létu taka af leðjunni. Til dæmis finnist arsenik í tvöfalt meira magni en eðlilegt sé. Þá sé einnig mikið magn af þungmálmum.

Telja leðjuna ekki hættulega umhverfinu

Grænfriðungar segja að lauslega áætlað hafi í leðjuflóðinu borist 50 tonn af arseniki, 300 tonn af krómi og hálft tonn af kvikasilfri.

Þetta stangast á við álit ungversku vísindaakademíunnar. Hennar álit er að þótt leðjan sé hættuleg sé magn þungmálma ekki svo mikið að það teljist hættulegt umhverfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×